Enski boltinn

Chelsea ekkert að grínast: Að kaupa Kai Havertz og búast við Thiago Silva

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kai Havertz verður væntanlega orðinn leikmaður Chelsea áður en vikan er liðin.
Kai Havertz verður væntanlega orðinn leikmaður Chelsea áður en vikan er liðin. Getty/Marius Becker

Chelsea virðist búið að taka yfirburðarforystu meðal ensku úrvalsdeildarliðanna í kapphlaupinu um öfluga leikmenn á leikmannamarkaðnum.

Ensku miðlarnir segja frá því í dag að Chelsea sé langt komið með að ganga frá kaupunum á Kai Havertz frá Bayer Leverkusen.

Guardian segir að Chelsea ætli að borga Bayer Leverkusen nálægt 90 milljónum punda og yrði þetta þá enn einn ungur og spennandi leikmaður sem kæmi til félagsins í sumar.

Chelsea ætlar sér að krækja í reynslu líka því í frétt Guardian kemur einnig fram að Chelsea býst líka við að semja við Thiago Silva.

Thiago Silva, fyrirliði PSG sem tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær, er með lausan samning við franska félagið.

Chelsea hefur einnig verið orðað við Ben Chilwell, vinstri bakvörð Leicester, sem mun kosta félagið í kringum 50 milljónir punda.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, er að endurskipuleggja sóknarleik liðsins en áður hafði hann keypt þá Hakim Ziyech frá Ajax og Timo Werner frá Leipzig.

Kai Havertz er einn besti ungi leikmaðurinn í Evrópu í dag en þessi 21 árs gamli sókndjarfri miðjumaður var með 12 mörk og 6 stoðsendingar í þýsku deildinni á nýlokinni leiktíð.

Havertz er sagður vera búinn að samþykkja fimm ára samning og að Chelsea muni borga 80 milljónir evra strax en svo tuttugu milljónir evra til viðbótar seinna.

Brasilíski miðvörðurinn Thiago Silva er vissulega orðinn 35 ára gamall en hann ætti að geta komið með leikreynslu og leiðtogahæfileika inn í þetta unga Chelsea lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×