Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - Fjölnir 2-0 | Staða Fjölnismanna versnar enn Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 25. ágúst 2020 22:04 Ásgeir Eyþórsson kemur Fylki yfir á 67. mínútu. vísir/vilhelm Fylkir komst upp í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla með 2-0 sigri á botnliði Fjölnis á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Ásgeir Eyþórsson og Valdimar Þór Ingimundarson skoruðu mörk Fylkismanna sem geta verið mjög ánægðir með uppskeru tímabilsins. Staða Fjölnismanna versnar hins vegar enn. Þeir eru með fjögur stig á botni deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti, og eiga enn eftir að vinna leik. Fylkismenn voru sterkari í fyrri hálfleiknum, sérstaklega framan af, og fengu hættulegri færi. Valdimar skaut framhjá úr besta færi Árbæinga eftir stundarfjórðung. Atli Gunnar Guðmundsson varði svo frá Hákoni Inga Jónssyni úr fínu færi og Ólafur Ingi Skúlason skaut yfir úr öðru slíku. Fjölnismönnum gekk bölvanlega að halda boltanum í fyrri hálfleik og áttu í vandræðum á miðsvæðinu. Þeir áttu tvær hættulegar skyndisóknir undir lok fyrri hálfleiks en annað var það ekki. Þessir stuðningsmenn Fylkir dóu ekki ráðalausir og fundu leið til að sjá sína menn spila, þrátt fyrir áhorfendabannið.vísir/vilhelm Seinni hálfleikurinn var jafn til að byrja með en svo náðu Fylkismenn undirtökunum, án þess þó að ógna mikið. Hlutirnir breyttust hins vegar um miðjan seinni hálfleik. Á 65. mínútu komst varamaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen í dauðafæri en skaut beint á Atla Gunnar. Tveimur mínútum náði Fylkir svo forystunni. Daði Ólafsson tók þá hornspyrnu frá hægri og sendi á kollinn á Ásgeir sem skoraði með skalla. Sama uppskrift að marki og í síðasta leik Fylkis, 1-1 jafnteflinu við Stjörnuna. Eftir markið tóku Fjölnismenn við sér og varamaðurinn Jón Gísli Ström var í tvígang hársbreidd frá því að skora. Fyrst varði Aron Snær Friðriksson vel frá honum og síðan slapp hann í gegn, vippaði yfir Aron og, því miður fyrir hann, yfir markið. Fjölnismenn lögðu allt kapp á að jafna leikinn og undir lokin var vörn þeirra orðin ansi fámenn. Það nýttu Fylkismenn sér til að skora annað mark sitt. Einni mínútu fyrir leikslok slapp Valdimar í gegn eftir sendingu Arnórs Borg, lék á Atla Gunnar og renndi boltanum í autt markið. Þetta var sjöunda mark Valdimars í sumar og það gulltryggði sigur Árbæinga. Valdimar skorar annað mark Fylkis.vísir/vilhelm Af hverju vann Fylkir? Fylkismenn voru heilt yfir sterkari aðilinn og sigurinn var sanngjarn. Þeir misstu aðeins tökin eftir að Ásgeir kom þeim yfir en gerðu nóg til að landa sínum sjötta sigri í Pepsi Max-deildinni í sumar. Árbæingar voru sterkari á miðsvæðinu þar sem Ólafur Ingi réði ríkjum með dyggri aðstoð Nikulásar Vals Gunnarssonar. Hverjir stóðu upp úr? Valdimar var líflegur í fyrri hálfleik, datt aðeins út úr leiknum í þeim seinni en skoraði svo markið sem róaði taugar Fylkismanna. Ásgeir var öflugur í vörninni og skoraði annan leikinn í röð. Ragnar Bragi Sveinsson leysti stöðu miðvarðar vel og Aron Snær varði vel frá Jóni Gísla í seinni hálfleik. Hann hafði lítið að gera í leiknum en var vandanum vaxinn á þessu augnabliki. Eins og áður sagði stjórnaði Ólafur Ingi ferðinni á miðju Fylkis og Nikulás átti sömuleiðis flottan leik. Arnór Borg átti líka fínustu innkomu í seinni hálfleik. Orri Þórhallsson sýndi góða takta í liði Fjölnis og Jón Gísli hleypti nýju lífi í sóknarleik gestanna úr Grafarvogi eftir að hann kom inn á. Hvað gekk illa? Enn og aftur fengu Fjölnismenn á sig mark eftir fast leikatriði og enn og aftur var ekki mikið bit í sóknarleik þeirra. Grafarvogsbúar fengu þó tvö góð færi til að skora eftir að Árbæingar náðu forystunni sem ekki nýttust. Þá urðu Guðmundur Karl Guðmundsson og Jóhann Árni Gunnarsson undir í baráttunni við Ólaf Inga og Nikulás á miðjunni. Hvað gerist næst? Í næsta leik sínum sækir Fylkir hina nýliðana, Gróttu, heim. Leikurinn verður á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi á sunnudaginn. Eins og staðan er núna er næsti leikur Fjölnis líka gegn Gróttu, 14. september. Fjölnismenn áttu að mæta Blikum á sunnudaginn en þeim leik hefur verið frestað. Þeir leika því ekki aftur fyrr en að landsleikjahléinu loknu. Ólafur: Ásgeir var búinn að tala um að hann væri ekkert búinn að skora Ólafur hrósaði sínum mönnum eftir sigurinn á Fjölni.vísir/vilhelm „Mér fannst þetta heilt yfir sanngjarn sigur. Við vorum töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttum að skora nokkur mörk þá. Við komum líka nokkuð sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðum marki,“ sagði Ólafur eftir leik. „Svo féllum við aðeins til baka og þeir lágu á okkur. Þeir fengu ágætis færi og Aron [Snær Friðriksson] varði einu sinni mjög vel. En það er s.s. hans hlutverk að vera til staðar. Ég er mjög ánægður.“ Ólafur fannst sínir menn spila af miklum krafti í leiknum. „Ákefðin var mjög há. Svo var gott flæði á boltanum. Ég er ánægður með það og baráttuna í strákunum.“ Líkt og í síðasta leik Fylkis, 1-1 jafntefli við Stjörnuna, skoraði Ásgeir Eyþórsson með skalla eftir hornspyrnu Daða Ólafssonar frá hægri. „Ásgeir var einmitt búinn að tala um að hann væri ekkert búinn að skora í sumar. Það var kominn tími á hann og gaman að hann skori í tveimur leikjum í röð,“ sagði Ólafur. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði annað mark Fylkis á 89. mínútu. Í Pepsi Max Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær sagði Guðmundur Benediktsson að möguleiki væri á að Valdimar væri á förum frá Fylki. Ólafur segir að Fylkismenn hafi komið af fjöllum þegar Guðmundur varpaði þessu fram. „Það liggur ekkert fyrir þar. Þetta kom öllum á óvart sem horfðu á þetta í Stúkunni,“ sagði Ólafur sem á ekki von á öðru en að Valdimar klári tímabilið með Fylki. Ásmundur: Meðan glugginn er opinn er aldrei að vita hvað gerist Ásmundur er orðinn langþreyttur á því hversu illa Fjölnismönnum gengur að verjast föstum leikatriðum.vísir/stöð 2 sport Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var svekktur með að fá á sig mark úr föstu leikatriði í enn eitt skiptið í sumar. „Þarna erum við bara, ekki alveg nógu klókir. Við þurfum að bæta úr. Enn og aftur fengum við á okkur mark eftir hornspyrnu. Þá þurftum við að fara framar og reyna að jafna. Og þess vegna kom mark númer tvö, því við vorum mannmargir í sókninni,“ sagði Ásmundur að leik loknum. Eftir að Fjölnir lenti 1-0 undir um miðjan seinni hálfleik fékk liðið tvö upplögð færi til að jafna en þau fóru forgörðum. „Vissulega voru möguleikar fyrir hendi. Þetta var jafn leikur, mikil barátta og hiti í mönnum. Leikmenn lögðu allt í þetta og skildu allt eftir úti á vellinum. Ég get ekkert kvartað yfir því en það er dýrt að fá á sig mark eftir horn,“ sagði Ásmundur. „Maður getur kannski ekki farið fram á mikið meira en að menn gefi allt í þetta. Ég tel að menn hafi gert það í dag.“ Félagaskiptaglugginn er enn opinn. En er möguleiki á að Fjölnismenn fái liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins? „Vonandi,“ svaraði Ásmundur. „Það er ekkert í hendi en það glugginn er enn opinn og meðan hann er opinn er aldrei að vita hvað gerist.“ Pepsi Max-deild karla Fylkir Fjölnir
Fylkir komst upp í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla með 2-0 sigri á botnliði Fjölnis á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Ásgeir Eyþórsson og Valdimar Þór Ingimundarson skoruðu mörk Fylkismanna sem geta verið mjög ánægðir með uppskeru tímabilsins. Staða Fjölnismanna versnar hins vegar enn. Þeir eru með fjögur stig á botni deildarinnar, fimm stigum frá öruggu sæti, og eiga enn eftir að vinna leik. Fylkismenn voru sterkari í fyrri hálfleiknum, sérstaklega framan af, og fengu hættulegri færi. Valdimar skaut framhjá úr besta færi Árbæinga eftir stundarfjórðung. Atli Gunnar Guðmundsson varði svo frá Hákoni Inga Jónssyni úr fínu færi og Ólafur Ingi Skúlason skaut yfir úr öðru slíku. Fjölnismönnum gekk bölvanlega að halda boltanum í fyrri hálfleik og áttu í vandræðum á miðsvæðinu. Þeir áttu tvær hættulegar skyndisóknir undir lok fyrri hálfleiks en annað var það ekki. Þessir stuðningsmenn Fylkir dóu ekki ráðalausir og fundu leið til að sjá sína menn spila, þrátt fyrir áhorfendabannið.vísir/vilhelm Seinni hálfleikurinn var jafn til að byrja með en svo náðu Fylkismenn undirtökunum, án þess þó að ógna mikið. Hlutirnir breyttust hins vegar um miðjan seinni hálfleik. Á 65. mínútu komst varamaðurinn Arnór Borg Guðjohnsen í dauðafæri en skaut beint á Atla Gunnar. Tveimur mínútum náði Fylkir svo forystunni. Daði Ólafsson tók þá hornspyrnu frá hægri og sendi á kollinn á Ásgeir sem skoraði með skalla. Sama uppskrift að marki og í síðasta leik Fylkis, 1-1 jafnteflinu við Stjörnuna. Eftir markið tóku Fjölnismenn við sér og varamaðurinn Jón Gísli Ström var í tvígang hársbreidd frá því að skora. Fyrst varði Aron Snær Friðriksson vel frá honum og síðan slapp hann í gegn, vippaði yfir Aron og, því miður fyrir hann, yfir markið. Fjölnismenn lögðu allt kapp á að jafna leikinn og undir lokin var vörn þeirra orðin ansi fámenn. Það nýttu Fylkismenn sér til að skora annað mark sitt. Einni mínútu fyrir leikslok slapp Valdimar í gegn eftir sendingu Arnórs Borg, lék á Atla Gunnar og renndi boltanum í autt markið. Þetta var sjöunda mark Valdimars í sumar og það gulltryggði sigur Árbæinga. Valdimar skorar annað mark Fylkis.vísir/vilhelm Af hverju vann Fylkir? Fylkismenn voru heilt yfir sterkari aðilinn og sigurinn var sanngjarn. Þeir misstu aðeins tökin eftir að Ásgeir kom þeim yfir en gerðu nóg til að landa sínum sjötta sigri í Pepsi Max-deildinni í sumar. Árbæingar voru sterkari á miðsvæðinu þar sem Ólafur Ingi réði ríkjum með dyggri aðstoð Nikulásar Vals Gunnarssonar. Hverjir stóðu upp úr? Valdimar var líflegur í fyrri hálfleik, datt aðeins út úr leiknum í þeim seinni en skoraði svo markið sem róaði taugar Fylkismanna. Ásgeir var öflugur í vörninni og skoraði annan leikinn í röð. Ragnar Bragi Sveinsson leysti stöðu miðvarðar vel og Aron Snær varði vel frá Jóni Gísla í seinni hálfleik. Hann hafði lítið að gera í leiknum en var vandanum vaxinn á þessu augnabliki. Eins og áður sagði stjórnaði Ólafur Ingi ferðinni á miðju Fylkis og Nikulás átti sömuleiðis flottan leik. Arnór Borg átti líka fínustu innkomu í seinni hálfleik. Orri Þórhallsson sýndi góða takta í liði Fjölnis og Jón Gísli hleypti nýju lífi í sóknarleik gestanna úr Grafarvogi eftir að hann kom inn á. Hvað gekk illa? Enn og aftur fengu Fjölnismenn á sig mark eftir fast leikatriði og enn og aftur var ekki mikið bit í sóknarleik þeirra. Grafarvogsbúar fengu þó tvö góð færi til að skora eftir að Árbæingar náðu forystunni sem ekki nýttust. Þá urðu Guðmundur Karl Guðmundsson og Jóhann Árni Gunnarsson undir í baráttunni við Ólaf Inga og Nikulás á miðjunni. Hvað gerist næst? Í næsta leik sínum sækir Fylkir hina nýliðana, Gróttu, heim. Leikurinn verður á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi á sunnudaginn. Eins og staðan er núna er næsti leikur Fjölnis líka gegn Gróttu, 14. september. Fjölnismenn áttu að mæta Blikum á sunnudaginn en þeim leik hefur verið frestað. Þeir leika því ekki aftur fyrr en að landsleikjahléinu loknu. Ólafur: Ásgeir var búinn að tala um að hann væri ekkert búinn að skora Ólafur hrósaði sínum mönnum eftir sigurinn á Fjölni.vísir/vilhelm „Mér fannst þetta heilt yfir sanngjarn sigur. Við vorum töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttum að skora nokkur mörk þá. Við komum líka nokkuð sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðum marki,“ sagði Ólafur eftir leik. „Svo féllum við aðeins til baka og þeir lágu á okkur. Þeir fengu ágætis færi og Aron [Snær Friðriksson] varði einu sinni mjög vel. En það er s.s. hans hlutverk að vera til staðar. Ég er mjög ánægður.“ Ólafur fannst sínir menn spila af miklum krafti í leiknum. „Ákefðin var mjög há. Svo var gott flæði á boltanum. Ég er ánægður með það og baráttuna í strákunum.“ Líkt og í síðasta leik Fylkis, 1-1 jafntefli við Stjörnuna, skoraði Ásgeir Eyþórsson með skalla eftir hornspyrnu Daða Ólafssonar frá hægri. „Ásgeir var einmitt búinn að tala um að hann væri ekkert búinn að skora í sumar. Það var kominn tími á hann og gaman að hann skori í tveimur leikjum í röð,“ sagði Ólafur. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði annað mark Fylkis á 89. mínútu. Í Pepsi Max Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær sagði Guðmundur Benediktsson að möguleiki væri á að Valdimar væri á förum frá Fylki. Ólafur segir að Fylkismenn hafi komið af fjöllum þegar Guðmundur varpaði þessu fram. „Það liggur ekkert fyrir þar. Þetta kom öllum á óvart sem horfðu á þetta í Stúkunni,“ sagði Ólafur sem á ekki von á öðru en að Valdimar klári tímabilið með Fylki. Ásmundur: Meðan glugginn er opinn er aldrei að vita hvað gerist Ásmundur er orðinn langþreyttur á því hversu illa Fjölnismönnum gengur að verjast föstum leikatriðum.vísir/stöð 2 sport Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var svekktur með að fá á sig mark úr föstu leikatriði í enn eitt skiptið í sumar. „Þarna erum við bara, ekki alveg nógu klókir. Við þurfum að bæta úr. Enn og aftur fengum við á okkur mark eftir hornspyrnu. Þá þurftum við að fara framar og reyna að jafna. Og þess vegna kom mark númer tvö, því við vorum mannmargir í sókninni,“ sagði Ásmundur að leik loknum. Eftir að Fjölnir lenti 1-0 undir um miðjan seinni hálfleik fékk liðið tvö upplögð færi til að jafna en þau fóru forgörðum. „Vissulega voru möguleikar fyrir hendi. Þetta var jafn leikur, mikil barátta og hiti í mönnum. Leikmenn lögðu allt í þetta og skildu allt eftir úti á vellinum. Ég get ekkert kvartað yfir því en það er dýrt að fá á sig mark eftir horn,“ sagði Ásmundur. „Maður getur kannski ekki farið fram á mikið meira en að menn gefi allt í þetta. Ég tel að menn hafi gert það í dag.“ Félagaskiptaglugginn er enn opinn. En er möguleiki á að Fjölnismenn fái liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins? „Vonandi,“ svaraði Ásmundur. „Það er ekkert í hendi en það glugginn er enn opinn og meðan hann er opinn er aldrei að vita hvað gerist.“
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti
Umfjöllun: Egyptaland - Ísland 24-27 | Annar frábær sigur og átta liða úrslit í sjónmáli Handbolti