Viðskipti innlent

Sáu ekki verðið í gleraugnaverslunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gleraugnaverslanir þurfa að hafa sýnilegri verðmerkingar að mati Neytendastofu.
Gleraugnaverslanir þurfa að hafa sýnilegri verðmerkingar að mati Neytendastofu. getty/koron

Viðunandi verðmerkingar og upplýsingar á vefsíðu vantaði hjá meirihluta þeirra gleraugnaversluna sem Neytendastofa segist hafa kannað á dögunum. Í úttekt stofnunarinnar kemur fram að 22 gleraugnaverslanir hafi verið heimsóttar og athugað hvort verðmerkingar á vörum og á þjónustu væru sýnilegar í verslun og á vefsíðum fyrirtækjanna.

„Afdráttarlaus skylda“ hvíli á seljendum að vera með verðskrá til staðar fyrir þær vörur og þjónustu sem seljandinn býður. Neytendastofa segist einnig hafa athugað hvort upplýsingar um þjónustuveitanda væru fullnægjandi á vefsíðum þeirra; svo sem kennitala, heimilisfang, netfang o.s.frv.

Alls þurftu 13 verslanir af 22 að gera úrbætur á verðmerkingum eða upplýsingum á heimasíðu sinni að sögn Neytendastofu, þar af þurftu átta að bæta úr báðu. „Við könnun Neytendastofu var sérstaklega tekið eftir að bæta þarf verðmerkingar á þjónustu sem gleraugnaverslanir bjóða upp á, s.s. sjónmælingu,“ segir Neytendastofa.

Að athugun lokinni segist stofnunin hafa upplýst gleraugnaverslanirnar í framhaldinu um þær skyldur sem á þeim hvíla og fór fram á úrbætur þar sem þörf var á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×