Erlent

Telur ekki ljóst að bóluefni virki á eldra fólk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Anders Tegnell sóttvarnalæknir á fréttamannafundi í maí.
Anders Tegnell sóttvarnalæknir á fréttamannafundi í maí. epa/HENRIK MONTGOMERY

Anders Tegnell, sóttvarnarlæknir í Svíþjóð, segir alls óvíst hvort væntanleg bóluefni gegn kórónuveirunni muni veita eldra fólki sömu vörn og yngri aldurshópum. Eldra fólk er þó viðkvæmasti hópurinn fyrir Covid-19 og þyrfti mest á slíkri vörn að halda. 

Tegnell segir í samtali við Aftonbladet að þróun bóluefnis hafi til þessa ekki tekið mið af aldri fólks og því sé ekki hægt að fullyrða að það komi til með að hafa sömu áhrif á alla. Vísindamenn við Háskólann í Norður-Karólínu bentu einnig á það í vikunni að holdafar fólks kunni að hafa áhrif á virkni bóluefnisins. Því þurfi lyfjafyrirtæki að taka bæði mið af aldri og holdafari við þróun á bólefnum. 

Lyfjafyrirtæki keppast nú við að þróa bóluefni gegn kórónuveirunni. Þróunarferli bandaríska fyrirtækisins Moderna er komið á svonefnt þriðja stig og hyggst það prófa framleiðslu sína á 30 þúsund einstaklingum yfir þriggja mánaða tímabil nú í haust.

Samkvæmt því sem Tegnell segir hafa rannsóknir til þessa ekki sérstaklega beinst að eldra fólki, sem telst einn viðkvæmasti hópurinn. Það hafi sýnt sig að áhrif annarra bóluefna geti verið minna í þessum hópi, þar sem ónæmiskerfið sé oft farið að veikjast, og því telur hann mikilvægt að sjónum sé sérstaklega beint að honum. 

Á þessum tímapunkti segir Tegnell óvissuna mikla, en er þó sannfærður um að eldra fólk mun samt sem áður njóta góðs af bóluefni þegar það liggur fyrir. Fyrirfram sé þó ekki hægt að leggja fram óskeikula áætlun um hver sé besta stefnan í notkun bóluefnis.


Tengdar fréttir

Tegnell á ekki von á annarri stórri bylgju

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segist ekki eiga von á stórri seinni bylgju kórónuveirusmita í landinu þegar hausta tekur. Frekar séu líkur á staðbundnum hópsmitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×