Erlent

Óeirðir brutust út í Malmö eftir kóranbrennu

Sylvía Hall skrifar
Mikill fjöldi fólks kom saman til þess að mótmæla brennunni.
Mikill fjöldi fólks kom saman til þess að mótmæla brennunni. Vísir/AP

Þrjú hundruð manns komu saman og mótmæltu kóranbrennu sem danskur öfgaflokkur stóð fyrir í Malmö í gær. Óeirðir brutust út í Rosengård-hverfinu og steinum kastað að lögreglu. Nokkrir lögreglumenn slösuðust í óeirðunum og skemmdir urðu á bílum.

Brennan var tekin upp og birt á netinu. Danski Harðlínu-flokkurinn, sem heitir á móðurmálinu Stram Kurs, er talinn hafa staðið fyrir brennunni.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að lögregla hafi meinað danska stjórnmálamanninum Rasmus Paludan að mæta á brennuna. Paludan er stofnandi flokksins og þekktur fyrir hatursfullar skoðanir í garð innflytjenda, en hann stóð til að mynda fyrir mótmælum í Kaupmannahöfn í fyrra. 

Paludan segist berjast gegn því sem hann kallar „íslamsvæðingu“ og hótaði að brenna helgirit múslima í mótmælum síðasta árs.

Stuðningsmenn flokksins létu afskipti lögreglu ekki stoppa sig og héldu brennunni til streitu. Hún fór fram í hverfi þar sem margir innflytjendur búa en lögregla skarst í leikinn og hafa um fimmtán manns verið handteknir. Þrír voru síðar handteknir grunaðir um að kynda undir hatri eftir að hafa sparkað í kóraninn.

Sænska ríkisútvarpið SVT hefur eftir Rickard Lundqvist, talsmanni lögreglunnar í Malmö, segir lögreglu fylgjast með þróun mála. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir lítinn sýnileika í mótmælunum en hann segir lögreglu vera á staðnum þrátt fyrir að fáir verði varir við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×