Innlent

Boðar tilslakanir á veiruaðgerðum innanlands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir væntir þess að brátt verði hægt að slaka á aðgerðum vegna kórónuveirunnar hér á landi, fyrst innanlands. Vísaði hann máli sínu til stuðnings í þann árangur sem náðst hefur í baráttunni við veiruna undanfarnar vikur. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Aðspurður sagði sóttvarnalæknir ekki enn ljóst hvaða breytingar á aðgerðum hann hyggst leggja til en nú er um vika í að ný auglýsing heilbrigðisráðherra um veiruaðgerðir verði birt. Núverandi auglýsing heilbrigðisráðherra gildir til 10. september næstkomandi.

Þórólfur benti jafnframt á að við þyrftum að vera viðbúin því að fólk greinist áfram með veiruna hér á landi. Þá séu aðgerðir hér síður en svo harðari en í öðrum löndum og halda þurfi áfram skimun á landamærum. Nokkurrar óánægju hefur gætt um það fyrirkomulag, einkum úr röðum ferðaþjónustunnar. 

Í framhaldi af tilslökunum innanlands sagði Þórólfur að e.t.v. verði hægt að slaka á aðgerðum við landamærin en stíga þurfi mjög varlega til jarðar til að lágmarka áhættuna á því að veiran komist hingað til lands. 

Þórólfur lagði jafnframt áherslu á að núverandi fyrirkomulag á landamærum, þ.e. skimun við komu til landsins, nokkurra daga sóttkví og seinni skimun, hafi skilað árangri. Það sé aðgerðum stjórnvalda að þakka að veiran sé ekki alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi um þessar mundir. 

Frá 15. júní hafi rúmlega 90 greinst með veiruna við landamærin sem þýði að tekist hafi að koma í veg fyrir að þetta fólk dreifði veirunni í samfélaginu. Þá hafi fleiri greinst í seinni sýnatöku en Þórólfur bjóst við í fyrstu, eða 14 manns. Það sýni að sú aðgerði beri árangur.


Tengdar fréttir

Enginn greindist innan­lands í gær

Enginn greindist með virkt kórónuveirusmit síðasta sólarhringinn hér á landi. Þó greindust tveir með kórónuveirusmit á landamærunum, en bíða báðir mótefnamælingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×