Innlent

Meiri áhætta að slaka á takmörkunum á vínveitingastöðum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir meiri áhættu að slaka á takmörkunum á vínveitingastöðum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir meiri áhættu að slaka á takmörkunum á vínveitingastöðum. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir telur meiri hættu á að kórónuveirusmit berist milli manna þegar vín er haft við hönd og því sé meiri áhætta að rýmka takmarkanir á opnun skemmtistaða og vínveitingastaða. Hann væntir þess að brátt verði hægt að slaka á aðgerðum vegna kórónuveirunnar hér á landi en mikill árangur hafi náðst í baráttunni við veiruna undanfarnar vikur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að mörg smita sem komið hafa upp hér innanlands að undanförnu tengist vínveitingastöðum. „Menn passa sig ekki þegar þeir eru komnir í gleðskapinn eins mikið,“ sagði Þórólfur.

Viðlíka upplýsingar megi einnig sjá erlendis og því telji hann meiri áhættu á að rýmka aðgerðir á slíkum stöðum. Frá því í vetur hefur skemmtistöðum og vínveitingastöðum verið gert að loka klukkan ellefu kvöld hvert. Þórólfur segir takmarkanirnar mikilvægar vegna aukinnar smithættu þegar vín er haft við hönd.

Eðlilegast að byrja á að slaka á innanlandstakmörkunum

Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann teldi hægt að fara að slaka á hér innanlands bráðlega. „Mér finnst við hafa náð árangri með þessum skimunum, við erum búin að greina um níutíu einstaklinga á landamærunum sem annars hefðu farið hérna inn með veiruna og getað valdið hér sýkingum og dreifingu á veirunni,“ sagði Þórólfur í Reykjavík síðdegis.

„Ég held að við ættum að geta farið að slaka á og í mínum huga er eðlilegast að huga að því að byrja á því að slaka á innanlandstakmörkunum.“

Hann segir ekki ljóst hvaða breytingar á aðgerðum hann hyggist leggja til en nú er um vika í að ný auglýsing heilbrigðisráðherra verði birt. Ýmislegt geti þó komið til álita sem enn eigi eftir að skoða og margt hafi hingað til verið viðrað í umræðum aðgerðateymisins.

„Við erum komin með þessa grímuskyldu þar sem ekki er hægt að tryggja tvo metrana, þá höfum við mælt með grímunotkun. Það er hins vegar ekki þar með sagt að það sé hægt að henda tveggja metra reglunni út um gluggann bara til þess að geta notað grímur þannig að tveggja metra reglan er númer eitt og síðan kemur hitt þar sem ekki er hægt að viðhafa hana.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Þórólf í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×