Rússnesk yfirvöld hafa farið fram á það við yfirvöld í Þýskalandi að þau veiti þeim ítarlegar upplýsingar um þær læknisfræðirannsóknir sem framkvæmdar voru á rússneska stjórnarandstöðuþingmanninum Alexei Navalny í Þýskalandi.
Eins og greint var frá í dag er það niðurstaða rannsóknar þýskra stjórnvalda að eitrað hafi verið fyrir Navalny með taugaeitrinu Novichok.
Navalny var fluttur með flugi til Berlínar til læknismeðferðar eftir að hafa fyrst veikst um borð í flugi milli Tomsk og Moskvu í síðasta mánuði. Hann hefur verið í dái síðan.
Reuters greinir frá því að saksóknarar í Rússlandi hafi óskað eftir því að dómsmálaráðuneyti Þýskalands láti þeim í té upplýsingar um niðurstöður eitureifnaprófana sem gerðar voru á Navalny í Þýskalandi.
Þá vilja þeir einnig frá blóðsýni, hársýni, þvagsýni, naglasýni og munnvatnssýni úr Navalny send frá Þýskalandi til Rússlands. Saksóknarar heita því að farið verði með allar upplýsingar sem berist frá Þýskalandi sem trúnaðarmál og að þær verði aðeins nýttar við rannsókn málsins.
Saksóknarar í Rússlandi hafa áður sagt að þeir telji enga þörf á því að rannsaka málið sem glæp þar sem engar vísbendingar hafi verið um að glæpur hafi verið framinn. Segjast þeir hafa rannsakað meira en 100 hluti í tengslum við málið, skoðað upptökur frá eftirlitsmyndavélum og pantað yfir tuttugu réttarmeinafræðilegar rannsóknir, án þess að neitt hafi bent til þess að glæpur hafi verið framin.
Hinn 44 ára Navalny hefur verið einn helsti andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta og verið áberandi í baráttunni gegn spillingu í landinu.
Starfslið Navalny segja ljóst að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi gefið fyrirskipun um að eitra fyrir Navalny, en Rússlandsstjórn hefur hafnað öllum slíkum ásökunum.