Enski boltinn

„Gylfi er alltof góður til að fara til Bandaríkjanna“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson er að hefja sitt fjórða tímabil hjá Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er að hefja sitt fjórða tímabil hjá Everton. getty/Richard Sellers

Bjarni Guðjónsson segir að Gylfi Þór Sigurðsson sé alltof góður fyrir MLS-deildina í Bandaríkjunum.

Líklegt er að Everton fái þrjá miðjumenn til sín áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst sem þrengir stöðu Gylfa hjá liðinu. James Rodríguez er við það að ganga í raðir Everton og líklegt þykir að Allan og Abdoulaye Doucouré fari einnig til bláa liðsins í Bítlaborginni.

„Sögurnar sem maður heyrir frá Everton eru að þeir eru að reyna að manna miðjuna betur og fjölga miðjumönnum í hópnum. Staðan hjá Gylfa í fyrra var kannski ekki alveg orðin eins og við höfðum vonast eftir þannig að það er ljóst að samkeppnin er mikil og er að aukast hjá honum,“ sagði Bjarni í samtali við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær.

Gylfi hefur m.a. verið orðaður við D.C. United í bandarísku MLS-deildinni. Bjarni segir alltof snemmt fyrir Gylfa að fara til Bandaríkjanna núna.

„Mitt mat er að hann er alltof góður til að fara til Bandaríkjanna. Eins og sagan hans [Waynes] Rooney þegar hann fór þangað yfir, spilaði þarna í tvö ár áður en hann fór til Derby til að fá aftur meiri kraft í leikinn sinn. Það var greinilegt að hann saknaði ákefðarinnar og ástríðunnar sem er í Englandi. Það kæmi mér á óvart ef Gylfi færi til Bandaríkjanna núna,“ sagði Bjarni.

Gylfi er á meðal þeirra leikmanna sem gáfu ekki kost á sér í íslenska landsliðið fyrir leikina gegn Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni. Bjarni skilur afstöðu Gylfa en segir að hann hefði ekki átt að þurfa að taka þessa ákvörðun sjálfur.

„Mér finnst pínu erfitt að setja þessa stráka í þessar aðstæður. Þeir eru að keppast um að vera í sínum liðum úti í stórum og sterkum deildum þannig ég skil þá. En mér finnst að ákvörðunin eigi að vera hjá Knattspyrnusambandinu,“ sagði Bjarni.

Klippa: Sportpakkinn - Bjarni um stöðu Gylfa hjá Everton

Tengdar fréttir

„Ekki ánægður með ákvörðun þeirra“

Landsliðsþjálfarinn kveðst ekki ánægður með þá ákvörðun Gylfa Þórs Sigurðssonar, Jóhanns Berg Guðmundssonar og Alfreðs Finnbogasonar að gefa ekki kost á sér í íslenska landsliðið fyrir leikina gegn Englandi og Belgíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×