Forsætisráðherra segir það ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að óska eftir því að launahækkunum í kjarasamningum verði frestað um eitt ár. Þvert á móti vinni ríkisstjórnin eftir þeirri yfirlýsingu sem hún gaf út við gerð lífskjarasamninganna.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og einn þriggja oddvita ríkisstjórnarinnar hefur viðrað þá hugmynd að launahækkunum í öllum gildandi kjarasamningum verði frestað um eitt ár og mætt harðri andstöðu Alþýðusambandsins og forystu stéttarfélaga opinberra starfsmanna.

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar gekk á eftir afstöðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í þessum efnum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í morgun.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins tók síðan undir með honum í viðtali í Morgunblaðinu í gær og gaf í skyn að launafólk gæti ekki krafist þess að umsamdar launahækkanir yrðu í svona efnahagsástandi. Því er eðlilegt að spyrja. Hefur þetta verið rætt af formönnunum þremur og jafnvel í ríkisstjórn. Í öðru lagi er hæstvirtur forsætisráðherra sammála samstarfsfélögum sínum,” spurði Logi.

Forsætisráðherra sagði þetta mál ekki hafa verið rætt í ríkisstjórn en rætt í Þjóðhagsráði í gær þar sem sitji fulltrúar ríkisstjórnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Þetta samtal fari einungis fram á borði aðila vinnumarkaðrins eins og fram hafi komið hjá bæði samgöngu- og fjármálaráðherra og hlyti þá að verða hluti af mun stærri mynd.
Katrín sagði að það væri ekki afstaða ríkisstjórnarinnar að ýta lífskjarasamningunum til hliðar enda sé Alþingi þessa daga að afgreiða frumvörp sem tengist yfirlýsingu stjórnvalda vegna þeirra og fleiri mál komi fram með haustinu.
„Þannig að ríkisstjórnin vinnur áfram samkvæmt sinni skýru yfirlýsingu sem hún gaf í kringum lífskjarasamningana. Ég hef hins vegar haft það fyrir sið síðan ég tók við þessu embætti að þar sem vélað er um kaup og kjör á almennum markaði er vélað um á almennum markaði. Og ég ætla ekki að stíga inn í þær viðræður sem eiga heima við samningaborðið en ekki hjá mér,” sagði Katrín Jakobsdóttir á Alþingi í morgun.