Enski boltinn

Samkeppnin harðnar gríðarlega hjá Gylfa á næstu dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr aukaspyrnu í æfingaleik á móti Blackpool á dögunum.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr aukaspyrnu í æfingaleik á móti Blackpool á dögunum. Getty/Nathan Stirk

Gylfi Þór Sigurðsson valdi það að æfa með Everton í stað þess að koma til móts við íslenska landsliðið og missir því að leikjunum við England og Belgíu.

Gylfi þarf að sýna sig og sanna fyrir knattspyrnustjóranum Carli Ancelotti sem ætlar sér að dæla miðjumönnum inn í leikmannahópinn á næstunni.

Það er því ljóst að samkeppnin á miðju Everton liðsins mun líta allt öðruvísi út eftir nokkra daga en hún var á síðustu leiktíð.

Gylfi fékk mikið að spila undir stjórn Ancelotti á síðustu leiktíð en ítalski stjórinn færði Gylfa aftur á móti mun aftar á völlinn.

Fabrizio Romano, sem er oftast á undan með fréttirnar, segir frá því að Everton sé að vinna að því að fá þrjá leikmenn á næstu dögum.

Paul Joyce hjá enska blaðinu The Times hefur líka heimildir fyrir því að þessir þrír miðjumenn séu á leiðinni á Goodison Park.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Abdoulaye Doucouré, sem kemur frá Watford, James Rodríguez sem kemur frá Real Madrid og Allan sem kemur frá Napoli á Ítalíu en þeir eru allir sagði kosta um tuttugu milljónir punda.

Frakkinn Abdoulaye Doucouré er 27 ára gamall og hans besta staða er á miðri miðjunni þótt hann geti bæði spilað framar og aftar.

Kólumbíumaðurinn James Rodríguez er 29 ára gamall og spilar sem sóknarmiðjumaður. Hann getur spilað á vængnum en besta staða hans er í holunni.

Brasilíumaðurinn Allan er 29 ára gamall og spilar á miðri miðjunni eða sem varnartengiliður.

Everton mun hlusta á tilboð í Gylfa sem hefur verið orðaður við bandarísku deildina. Það er því mikið undir hjá Gylfa í byrjun tímabilsins ætli hann að spila sig inn í hlutverk hjá Everton liðinu.

Gylfi er ekki sá eini sem svitnar yfir þessum fréttum frá Paul Joyce. Theo Walcott, Fabian Delph og Bernard eru allir til sölu sem og þeir Mohamed Besic, Sandro Ramírez og Yannick Bolasie sem hafa verið lengi á leiðinni í burtu frá Everton.

Carlo Ancelotti spilaði oftast með tvo miðjumenn í leikkerfinu 4-4-2 á síðustu leiktíð og áttu þeir báðir að halda stöðu. Ancelotti gæti skipt í 4-2-3-1 til að koma þriðja miðjumanninum inn en það er ljóst að það verða margir um hituna hjá Everton á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×