Fótbolti

Íslendingurinn fljúgandi í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elías Már Ómarsson fagnar marki með Excelsior Rotterdam liðinu.
Elías Már Ómarsson fagnar marki með Excelsior Rotterdam liðinu. Getty/Angelo Blankespoor

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson hefur skorað fimm mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum í hollensku b-deildinni á þessu tímabili.

Elías Már skoraði þrennu um helgina þegar lið hans Excelsior Rotterdam tapaði 4-6 á móti Almere City í miklum markaleik.

Elías Már hafði skorað tvö mörk í 6-1 sigri á 21 árs liði PSV Eindhoven í fyrstu umferðinni.

Excelsior Rotterdam hefur skorað tíu mörk í fyrstu tveimur umferðunum en er engu að síður bara með þrjú stig.

Elías Már kom sínu liði í 2-1 og 3-1 á sextándu og átjándu mínútu en gestirnir í Almere City svöruðu með fjórum mörkum í röð. Elías minnkaði muninn síðan í 4-5 þremur mínútum fyrir leikslok en leikmenn Almere City innsigluðu 6-4 sigur sinn mínútu síðar.

Þrenna Elíasar var hin fullkomna þrenna því hann skoraði fyrst með hægri fæti, svo með vinstri fæti og síðasta markið skoraði hann með skalla.

Elías Már er því með helming marka liðsins og hann er núna með tveggja marka forskot á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Elías Már hefur tekið upp þráðinn frá því í fyrra þegar hann endaði tímabilið í miklu stuði.

Elías Már skoraði ellefu deildarmörk í fyrra en þar af komu átta þeirra í síðustu átta leikjunum. Elías er því með þrettán mörk í síðustu tíu leikjum sínum í hollensku b-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×