Enski boltinn

Leikmaður Arsenal fjárfestir í vegan fótboltaliði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjarnir Hector Bellerin (til vinstri) og  Dani Ceballos fagna bikarmeistaratitli Arsenal í ágúst.
Spánverjarnir Hector Bellerin (til vinstri) og  Dani Ceballos fagna bikarmeistaratitli Arsenal í ágúst. Getty/Stuart MacFarlane

Knattspyrnumaðurinn Hector Bellerin er langt frá því að vera hættur að spila sem atvinnumaður í fótbolta en hann er engu að síður farinn að fjárfesta í fótboltanum.

Hector Bellerin, varnarmaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, er mikill náttúruverndarsinni og hann sýnir það í verki með því að fjárfesta í einu grænasta fótboltafélagi heims.

Hector Bellerin er nefnilega orðinn annar stærsti hluthafinn í enska D-deildarfélaginu Forest Green Rovers.

Forest Green Rovers hefur fengið viðurkenningu frá bæði FIFA og Sameinuðu þjóðunum sem umhverfisvænasta félag heims.

Forest Green Rovers varð að vegan fótboltaliði árið 2015 og árið var 2017 varð félagið fyrsta íþróttaliðið sem er kolefnislaust.

Bellerin er talsmaður náttúruverndar eins og nýja félagið sitt. „Forest Green er að sýna öðrum réttu leiðina,“ sagði Hector Bellerin.

Spánverjinn Hector Bellerin er enn bara 25 ára gamall og ætti því að eiga nóg eftir af sínum knattspyrnuferli. Samingur hans og Arsenal er til júníiloka 2023.

Bellerin er þekktur fyrir að vera annt um samfélagið sitt og safnaði nýverið pening til að planta sextíu þúsund trjám í Amazon-frumskóginum.

Bellerin ætlar sér með kaupunum í Forest Green Rovers að vinna með stjórnarformanninum Dale Vince í því að fá fótboltaheiminn til vakna af værum blundi þegar kemur að náttúruverndarsjónarmiðum.

„Þegar ég spilaði fyrst á móti Forest Green Rovers [æfingaleikur 2014] þá var það eina sem ég vissi um félagið að það væri langt í burtu frá London. Um leið og ég heyrði meira um félagið og vinnu þess þá vissi ég að ég vildi hitta þá og fá að vera hluti af þessu verkefni,“ sagði Hector Bellerin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×