Fótbolti

Eyjamaðurinn fær að glíma við Íslandsmeistarann í fyrstu umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Daði Sigurþórsson varð í vor fyrsti Íslandsmeistarinn í eFótbolta!
Róbert Daði Sigurþórsson varð í vor fyrsti Íslandsmeistarinn í eFótbolta! Mynd/KSÍ

Úrvalsdeildin í efótbolta hefst með fyrstu umferðinni í kvöld en deildin er á samstarfsverkefni á milli Knattspyrnusambands Íslands og Rafíþróttasamtaka Íslands.

Það verða fjórir flottir leikir í kvöld þar af eru tveir þeirra í beinni útsendingu. Deildina skipa átta bestu lið landsins og var byggt á árangri leikmanna á Íslandsmótinu í vor, þar sem fimmtíu lið skráðu sig til leiks.

Keppendur spila með sín FIFA Ultimate team lið og í kvöld hefst fyrsta umferð mótsins sem mun vera í beinni útsendingu á hverju miðvikudagskvöldi fram í desember.

Róbert Daði Sigurþórsson, fyrsti Íslandsmeistarinn í eFótbolta, mætir Eyjamanninum Guðmundi Tómas Sigurðssyni í sínum fyrsta leik í úrvalsdeildinni.

Silfurmaðurinn Aron Þormar Lárusson mætir Alexander Aroni Hannessyni frá Keflavík í sínum fyrsta leik en Aron Þormar vann fyrri leikinn í úrslitunum í vor en varð svo að sætta sig við silfur eftir 3-0 í seinni leiknum.

Leikur Arons Þormars og Alexanders Arons verður sýndur beint á Stöð2 esport og Vísi sem og leikur Leifs Sævarssonar frá LFG og Bjarka Má Sigurðssonar frá Víkingi.

Fjórði og síðasti leikur kvöldsins er á milli Tinds Örvars Örvarssonar frá Fylki og Jóhanns Ólafs Jóhannssonar frá LFG.

Spilaðar verða fjórðan umferðir á þrettán vikum í úrvalsdeildinni. Þegar FIFA21 kemur út skiptir úrvalsdeildin beint í nýjan leik, en fyrstu umferðirnar verða í FIFA20.

Einnig verður opnað á skráningar í opnar deildir, eða neðri deildir, og sigurvegari í opnu deildinni vinnur sér inn þátttökurétt í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Hver viðureign samanstendur af tveimur leikjum og samanlögð markatala ræður úrslitum. Keppt verður í FUT (FIFA Ultimate Team).

Útsendingin á Stöð2 esport, Vísi og twitch rás KSÍ hefst klukkan 19.30 en leikirnir byrja klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×