Enski boltinn

Sancho nær Old Trafford eftir Íslandsdvölina

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho sækir að Herði Björgvini Magnússyni sem gekk vel að verjast enska kantmanninum.
Jadon Sancho sækir að Herði Björgvini Magnússyni sem gekk vel að verjast enska kantmanninum. VÍSIR/GETTY

Bandaríski íþróttamiðillinn ESPN hefur eftir heimildum að vonir Manchester United um að landa enska landsliðsmanninum Jadon Sancho frá Dortmund hafi nú aukist.

ESPN segir að United sé skrefi nær því að ná samkomulagi um laun Sancho og greiðslur til umboðsmanns hans, en blaðamaðurinn virti Fabrizio Romano fullyrðir reyndar á Twitter að það sé ekkert vandamál í gangi varðandi samkomulag á milli leikmannsins og United. Hann vilji ólmur fara á Old Trafford og spurningin snúist eingöngu um það hvort að félögin nái saman.

Dortmund er sagt vilja 120 milljónir evra fyrir hinn tvítuga kantmann, sem var í byrjunarliði Englands gegn Íslandi á Laugardalsvelli en náði lítið að setja mark sitt á leikinn.

United telur uppsett verð „óraunhæft“ á tímum kórónuveirufaraldursins sem hafi mikil áhrif á fjárhag knattspyrnufélaga heimsins. ESPN segir að Sancho sé efstur á óskalista Ole Gunnars Solskjær og að félagið vinni að tilboði sem sé nálægt því sem Dortmund óski, en að upphæðin muni dreifast yfir lengri tíma og verða háð ákveðnum skilyrðum.

Íþróttastjóri Dortmund sagði reyndar fyrr í sumar að tíminn væri útrunninn varðandi möguleikann á að Sancho færi fyrir 5. október, þegar félagaskiptaglugginn lokast. Sú fullyrðing hefur verið tekin hæfilega alvarlega í fjölmiðlum.

United hefur keypt einn leikmann í sumar en það er hollenski miðjumaðurinn Donny van de Beek sem mættur er til félagsins og byrjaði að æfa í dag. Hann var með hollenska landsliðinu síðustu daga en æfði í dag með Harry Maguire fyrirliða og fleirum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×