Flutningaskipið Svartfoss, sem er í eigu Eimskips, lenti harkalega á hafnarbakkanum við í Skattøra í Noregi í kvöld. Þetta kemur fram á staðarmiðlinum iTromsø.
Þar segir að hafnarbakkinn hafi orðið fyrir talsverðu tjóni en engar tilkynningar um slys á fólki hafi borist lögreglu. Þó var viðbúnaður slökkvi- og sjúkraliðs á bryggjunni.
Skipið, sem er um 80 metrar að lengd, er sagt hafa setið fast upp við hafnarkantinn eftir að hafa rekist þar í, en dráttarbátur hafi verið kallaður út til þess að draga skipið frá hafnarbakkanum.
iTromsø hefur þá eftir Lennart Steffensen, yfirmanni hjá lögreglunni í Tromsø, að rannsókn á tildrögum atviksins væri hafin, til að mynda með skýrslutökum af skipverjum. Þá hafi slökkviliðinu verið falið að kanna hvort atvikið kynni að hafa leitt til mengandi leka í höfnina, en í ljós hafi komið að ekkert benti til slíks leka eða að gat hefði komið á skrokk skipsins.
Þá kemur fram að Lára Konráðsdóttir, forstöðumaður Eimskips í Noregi, hefði lítið getað tjáð sig um málið.
Svartfoss er með heimahöfn í Tromsø.