Hófu titilvörnina á sigri í sjö marka leik

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Liverpool v Leeds United - Premier League
visir/getty

Englandsmeistarar Liverpool hófu meistaravörn sína með því að mæta nýliðum Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í dag í stórveldaslag en Leeds vann ensku B-deildina á síðustu leiktíð.

Það blés ekki byrlega fyrir nýliðunum því strax á fjórðu mínútu var dæmd vítaspyrna eftir að boltinn fór í hönd varnarmanns Leeds. Mohamed Salah fór á vítapunktinn og skoraði örugglega.

Leedsarar voru ekki lengi að jafna metin. Það gerði Jack Harrison á 12.mínútu eftir að hafa farið illa með Trent Alexander-Arnold. Virgil van Dijk náði forystunni aftur fyrir meistarana á 20.mínútu með því að skalla boltann af harðfylgi yfir marklínuna eftir hornspyrnu. Aftur entist forystan stutt því Patrick Bamford nýtti sér sjaldséð mistök Van Dijk til að jafna metin í 2-2.

Liverpool fór engu að síður með forystu í leikhléið því Mo Salah skoraði glæsilegt mark skömmu eftir annað jöfnunarmark Leeds.

Gestirnir gáfust ekki upp og Mateusz Klich jafnaði á 66.mínútu og stefndi lengi vel í jafntefli. Á 88.mínútu fengu Liverpool aftur vítaspyrnu eftir hræðileg mistök spænska framherjans Rodrigo inn í vítateig Leeds. Mo Salah steig aftur á vítapunktinn og skoraði af öryggi.

Lokatölur 4-3 fyrir Liverpool í mögnuðum fótboltaleik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira