Fótbolti

Elías hefur átt magnað ár | Sjö mörk í fyrstu þremur leikjunum

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Már Ómarsson hefur raðað inn mörkum á árinu.
Elías Már Ómarsson hefur raðað inn mörkum á árinu. vísir/getty

Elías Már Ómarsson hefur byrjað tímabilið í hollensku B-deildinni í fótbolta stórkostlega en hann skoraði bæði mörk Excelsior í kvöld þegar liðið vann 2-1 útisigur gegn Dordrecht.

Elías skoraði þrennu í 6-4 tapi gegn Almere City á sunnudag og tvö mörk gegn varaliði PSV í fyrstu umferð. Hann hefur því skorað sjö mörk í fyrstu þremur umferðum leiktíðarinnar og er að sjálfsögðu markahæstur í deildinni.

Elías, sem er 25 ára, fylgir þar með eftir frábærum seinni hluta á síðustu leiktíð en hann skoraði níu mörk í jafnmörgum deildarleikjum eftir áramót. Hann hefur því gert 16 mörk í 12 deildarleikjum á almanaksárinu 2020 til þessa.

Alls skoraði Elías 12 mörk á síðustu leiktíð, í 28 deildarleikjum, eftir að hafa skorað sjö mörk í 23 leikjum á fyrstu leiktíð sinni með Excelsior.

Kolbeinn Þórðarson lék allan leikinn á miðjunni hjá Lommel í belgísku B-deildinni, í 3-2 sigri gegn Lierse í 2. umferð. Kolbeinn fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiks en þrátt fyrir það tryggði hans gamli liðsfélagi hjá Breiðabliki, Jonathan Hendrickx, Lommel sigurinn í blálokin.

Landsliðsmaðurinn Mikael Anderson var hins vegar ekki í leikmannahópi Midtjylland í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar, sem ýtir undir orðróm þess efnis að hann gæti verið á förum frá félaginu. Meistaralið Midtjylland tapaði 2-0 á útivelli gegn Sönderjyske. Ísak Óli Ólafsson var á varamannabekk SönderjyskE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×