Erlent

Hátt í fimm­tíu mót­mælendur hand­teknir

Sylvía Hall skrifar
„Sveta er forsetinn minn, Masha er drottningin mín,“ kölluðu mótmælendur í dag er þeir kröfðust þess að Maria Kolesnikova yrði látin laus úr haldi.
„Sveta er forsetinn minn, Masha er drottningin mín,“ kölluðu mótmælendur í dag er þeir kröfðust þess að Maria Kolesnikova yrði látin laus úr haldi. Vísir/AP

46 mótmælendur voru handteknir í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, fyrr í dag. Þúsundir mótmælenda höfðu safnast saman og kröfðust þeir þess að Maria Kolesnikova, ein þeirra þriggja kvenna sem tóku höndum saman í baráttunni gegn sitjandi forseta í ágúst, yrði látin laus úr haldi.

Greint var frá því fyrr í vikunni að Kolesnikova hefði verið numin á brott af grímuklæddum mönnum á mánudag. Ríkisfjölmiðlar í landinu sögðu hana vera í haldi á landamærunum að Úkraínu.

Meirihluti þeirra sem voru handteknir í dag voru konur, að því er fram kemur á vef Reuters. Talið er að um það bil fimm þúsund hafi safnast saman í dag til þess að krefjast þess að Kolesnikova yrði sleppt, en mótmæli hafa staðið yfir í landinu frá því að forsetakosningarnar fóru fram í ágúst.

Úrslitum kosninganna hefur verið harðlega mótmælt og Alexander Lúkasjenkó, forseti landsins, hefur verið sakaður um stórfellt kosningasvindl. Hann hefur verið forseti í 26 ár og löngum verið kallaður síðasti einræðisherra Evrópu.

Samkvæmt miðlægri kjörstjórn Hvíta-Rússlands hlaut hann 80 prósent atkvæða í kosningunum í síðasta mánuði en sú tala hefur verið dregin í efa. Svetlana Tíkanovskaja, helsti andstæðingur hans, er sögð hafa hlotið rúm tíu prósent en hún hefur farið fram á endurtalningu atkvæða og telst fullviss um að hún hafi hlotið mun fleiri atkvæði, eða á bilinu 60 til 70 prósent.


Tengdar fréttir

Óttast að leiðtogi mótmælenda hafi verið handtekinn

Vinir Mariu Kolesnikovu, eins leiðtoga mótmælenda í Hvíta-Rússlandi, óttast að yfirvöld hafi tekið hana höndum. Vitni segja að óþekktir menn hafi gripið hana í miðborg Minsk og ekið með hana burt í smárútu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×