Erlent

Sagaði af sér höndina til þess að svíkja út tryggingafé

Sylvía Hall skrifar
Frá Ljubljana. Konan á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi vegna málsins.
Frá Ljubljana. Konan á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi vegna málsins. Vísir/Getty

22 ára gömul kona í Slóveníu hefur verið dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa sagað af sér höndina í því skyni að svíkja út tryggingafé. Konan hafði gert fimm tryggingasamninga árið áður en atvikið átti sér stað.

Á vef BBC segir að konan hafi haldið því fram að hún hafi misst höndina við að klippa trjágreinar. Dómstóll í Ljubljana komst þó að þeirri niðurstöðu að hún og kærasti hennar höfðu staðið saman að svindlinu, en hann hafði leitað að gerviútlimum á internetinu nokkrum dögum áður. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi vegna málsins.

Konan, Julija Adlesic, leitaði á sjúkrahús eftir að höndin hafði verið skorin af fyrir ofan úlnlið. Hún tók þó ekki höndina sjálfa með sér og er það sagt hafa verið gert til þess að tryggja að hún yrði ekki saumuð aftur á og tjónið þannig meira.

Adlesic var handtekinn ásamt nokkrum ættingjum á síðasta ári skömmu eftir atvikið.

Við meðferð málsins hafnaði hún því alfarið að hafa vísvitandi skorið af sér höndina. Hefði tryggingarkrafa hennar verið tekin til greina hefði hún fengið yfir hálfa milljón evra í bætur og mánaðarlegar greiðslur til viðbótar, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×