Erlent

Tveir lögreglumenn skotnir í fyrirsát

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Myndefni af atvikinu náðist á öryggismyndavél.
Myndefni af atvikinu náðist á öryggismyndavél. Twitter

Tveir lögreglumenn í Los Angeles í Kaliforníu í Bandaríkjunum eru þungt haldnir eftir að hafa verið skotnir í fyrirsát. Árásarmaðurinn gengur laus.

Myndband af atvikinu sýnir manneskju nálgast lögreglubifreiðna sem mennirnir sátu í, skjóta inn í bílinn og hlaupast á brott. Alex Villanueva, lögreglustjóri Los Angeles, segir árásina bera þess merki að „heigull“ hafi verið á ferð.

Breska ríkisútvarpið hefur þá eftir lögreglu og sjónarvottum að mótmælendur hefðu komið saman fyrir utan sjúkrahúsið hvert farið var með lögreglumennina. Mótmælendur hafi hindrað aðgengi sjúkrabíla og einhverjir hafi hrópað „Vonandi deyja þeir!“

Lögreglumennirnir hafa ekki verið nafngreindir en þó hefur verið gefið út að um er ræða 31 árs gamla konu og 24 ára gamlan mann.

„Þetta er kaldranaleg áminning um að þetta er hættulegt starf. Gjörðir og orð hafa afleiðingar og starf okkar verður ekki auðveldara bara af því að fólk kann ekki að meta löggæslustörf,“ hefur BBC eftir Villanueva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×