Enski boltinn

Gareth Bale á leiðinni inn hjá Tottenham en Dele Alli líklega á leiðinni út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale varð að stórstjörnu hjá Tottenham en hér fagnar hann marki á gamla White Hart Lane.
Gareth Bale varð að stórstjörnu hjá Tottenham en hér fagnar hann marki á gamla White Hart Lane. EPA/ANDY RAIN

Tottenham stendur í stórræðum þessa dagana með því að reyna að endurheimta fyrrum dýrasta leikmann heims.

Guardian, BBC og fleiri enskir miðlar segja frá því að Gareth Bale sé mjög nálægt því að snúa aftur til Tottenham. Það eru margir spenntir að sjá Gareth Bale aftur í ensku úrvalsdeildinni og ekki síst að sjá þennan öfluga leikmenn spila fótbolta eftir alla bekkjarsetuna hjá Real Madrid að undanförnu.

Jonathan Barnett, umboðsmaður Gareth Bale, talaði um það við fjölmiðla í gærkvöldi að þeir væru nálægt því að ganga frá samningi og hlutirnir gætu gengið hratt fyrir sig á næstunni.

Tottenham fær Gareth Bale þá á láni frá spænska stórliðinu en knattspyrnustjórinn Zinedine Zidane hjá Real Madrid telur sig ekki geta notað einn besta knattspyrnumann heims.

Gareth Bale hefur ekki viljað fara frá Real Madrid undanfarin ár þrátt fyrir að félagið vilji augljóslega losna við hann. Það spilar mest inn í launin sem Gareth Bale er að fá hjá Real Madrid. Hann vill ekki missa þau enda með einn besta samnniginn í knattspyrnuheiminum.

Gareth Bale er að fá um 600 þúsund pund í laun á viku eða meira en 106 milljónir íslenskra króna. Það er ljóst að Tottenham mun taka á sig hluta af þessum launum og samningaviðræðurnar snúast væntanlega um það hversu mikinn hluta Tottenham menn borga.

Gareth Bale hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2013 þegar Real keypti hann fyrir metfé frá Tottenham. Bale lék með Tottenham frá 2007 til 2013 og varð að heimsklassa leikmanni hjá félaginu. Gareth Bale er enn bara 31 árs gamall og ætti því að vera enn á toppnum sem knattspyrnumaður.

Á sama tíma og Gareth Bale er út í kuldanum hjá Zidane þá virðist Jose Mourinho, knattspynustjóri Tottenham, ekki hafa not fyrir enska landsliðsmanninn Dele Alli.

Ensku miðlarnir telja að Dele Alli sé á leiðinni frá Tottenham en hann er ekki í leikmannahópi liðsins í forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Dele Alli er ekki meiddur en Jose Mouringo hefur gagnrýnt hann fyrir leti á æfingum og það lítur út fyrir að Alli sé enn ein stórstjarnan sem kemst upp á kant við Mourinho. Jose tók hann af velli í hálfleik á fyrsta leik Tottenham á tímaiblinu.

Tottenham mætir í kvöld Lokomotiv Plovdiv í Búlgaríu í forkeppni Evrópudeildarinnar og kannski skýrast þessi mál ekki endanlega fyrr en eftir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×