Enski boltinn

BBC og Sky: Liverpool og Bayern í viðræðum um Thiago

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Alcantara fagnar sigri Bayern München í Meistaradeild Evrópu í ágúst. Hann vann Meistaradeildina einnig með Barcelona árið 2011.
Thiago Alcantara fagnar sigri Bayern München í Meistaradeild Evrópu í ágúst. Hann vann Meistaradeildina einnig með Barcelona árið 2011. Getty/Michael Regan

Englandsmeistarar Liverpool gætu loksins verið að fá nýjan lykilleikmann ef marka fréttir enskra fjölmiðla í morgun.

BBC og Sky Sports segja frá því að Liverpool hafi loksins stigið fyrsta skrefið í því að kaupa miðjumaninn Thiago Alcantara frá Bayern München.

Thiago Alcantara er 29 ára gamall og var lykilmaður í liði Bayern München sem vann Meistaradeildina í síðasta mánuði.

Samkvæmt BBC hafa félögin ekki enn náð samkomulagi um kaupin en það lítur allt út fyrir að hann verði orðinn leikmaður Liverpool áður en glugginn lokar.

Thiago Alcantara á eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern og það er talið að Liverpool þurfi að borga 27 milljónir punda fyrir hann eða 4,8 milljarða íslenskra króna.

Thiago Alcantara er spænskur landsliðsmaður og hefur unnið sextán titla með Bayern. Thiago var áður hjá Barcelona fyrstu fjögur ár sín í meistaraflokki en hafði áður farið í gegnum unglingastarf Barca í fjögur ár.

Stuðningsmenn Liverpool hafa beðið lengi óþolinmóðir eftir því að Thiago Alcantara komi á Anfield en hann hefur verið orðaður við ensku meistarana í allt sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×