Enski boltinn

Thiago átti fleiri sendingar en allir leikmenn Chelsea þrátt fyrir að spila bara seinni hálfleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thiago Alcantara þreytti frumraun sína með Liverpool gegn Chelsea í gær.
Thiago Alcantara þreytti frumraun sína með Liverpool gegn Chelsea í gær. getty/Matt Dunham

Thiago Alcantara lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool þegar liðið sigraði Chelsea, 0-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Thiago kom inn á fyrir Jordan Henderson, fyrirliða Liverpool, í hálfleik. Og þrátt fyrir að spila aðeins 45 mínútur átti hann fleiri sendingar en allir leikmenn Chelsea í leiknum.

Gestirnir voru vissulega manni færri allan seinni hálfleikinn eftir að Andreas Christiansen var rekinn af velli undir lok þess fyrri fyrir að brjóta á Sadio Mané þegar hann var að sleppa í gegnum vörn Chelsea.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, beið ekki boðanna og setti Thiago inn á í hálfleik. Í seinni hálfleiknum átti hann 75 sendingar, fleiri en allir leikmenn Chelsea áttu í leiknum.

Síðan OPTA hóf að taka saman tölfræði af þessu tagi hefur enginn leikmaður átt fleiri sendingar á 45 mínútum í leik í ensku úrvalsdeildinni en Thiago. Níutíu prósent sendinga spænska landsliðsmannsins rötuðu á samherja.

Thiago fékk á sig víti þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Jorginho tók spyrnuna en Alisson varði frá honum.

Liverpool gekk frá kaupunum á Thiago frá Bayern München á föstudaginn. Talið er að Liverpool hafi greitt 25 milljónir punda fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×