Innlent

Ekki út­lit fyrir að ný­smituðum fjölgi milli daga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Vísir/vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vonast til þess að ekki hafi greinst fleiri með kórónuveiruna í gær heldur en daginn áður. Í gærkvöldi hafi í það minnsta ekki stefnt í að nýsmituðum fjölgaði milli daga. 

Víðir er í sóttkví um þessar mundir eftir að hafa verið útsettur fyrir kórónuveirusmiti í viðtali á Rás 2 í síðustu viku. Hann sagði í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að heilsan væri mjög góð en hann hefur komið sér upp sóttkvíaraðstöðu heima hjá sér. Hann gerir ráð fyrir að geta mætt aftur til vinnu á fimmtudaginn.

Inntur eftir því hvernig staðan á faraldrinum væri í dag sagði Víðir að það hefði verið jákvætt að færri greindust með veiruna í gær en daginn á undan. 38 greindust með veiruna í gær en 75 daginn áður.

„Það var mikið skimað í gær og það verður áhugavert að sjá tölurnar á eftir, hvað kemur út úr því. Við vonumst allavega til þess að við séum ekki að fara að fá fleiri en við höfðum í gær, kannski svona svipaðan dag. Það var allavega tilfinningin í gærkvöldi,“ sagði Víðir. Þá hafi talsvert verið skimað í gær.

„Í gær voru töluvert margir í skimun sem tengist sóttkvínni. Svo skimaði Landspítalinn mikið af sínu starfsfólki í tengslum við sóttkví og smit sem hafa komið upp þar. Þetta voru um sex, sjö hundruð sem voru teknir í svona skimanir í gær, fyrir utan alla sem fóru í sýnatöku vegna einkenna sem hafa verið ansi margir síðustu dagana,“ sagði Víðir.

Búast mætti við fleiri bylgjum í faraldrinum næstu mánuði.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að á meðan þessi faraldur er í svona mikilli uppsveiflu í heiminum þá muni það gerast að hér komi upp svona bylgjur alltaf öðru hverju. Við erum að læra og það var mikið ákall á okkur yfir helgina að grípa til mjög harðra aðgerða. Ég held að margir hafi átt von á því að í dag væri búið að setja mjög stífar reglur, fara jafnvel niður í tuttugu manns eða eitthvað slíkt,“ sagði Víðir.

Hann benti á að ekki væri aðeins horft á fjölda smitaðra við ákvarðanatöku um aðgerðir heldur einnig hversu margir séu alvarlega veikir. Enn eigi þó líklega eftir að koma almennilega fram hversu margir eigi eftir að veikjast alvarlega í þessari þriðju bylgju faraldursins sem nú gengur yfir.

Viðtalið við Víði í Bítinu má hlusta á í heild hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×