Enski boltinn

United ætlar ekki að fá miðvörð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Victor Lindelöf réði lítið við Wilfried Zaha í leik Manchester United og Crystal Palace í fyrradag.
Victor Lindelöf réði lítið við Wilfried Zaha í leik Manchester United og Crystal Palace í fyrradag. getty/Matthew Ashton

Þrátt fyrir að vörn Manchester United hafi ekki litið vel út í 1-3 tapinu fyrir Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn ætlar félagið ekki að fjárfesta í miðverði.

Victor Lindelöf og Harry Maguire áttu í miklum vandræðum með spræka og snögga sóknarmenn Palace í leiknum á Old Trafford á laugardaginn.

Það breytir þó ekki fyrirætlunum United á félagaskiptamarkaðnum. Samkvæmt The Athletic er það enn í forgangi að fá miðjumann og hægri kantmann áður en félagaskiptaglugganum verður lokað 5. október. Þá gæti United keypt vinstri bakvörð.

United hefur verið sterklega verið orðað við Jadon Sancho, enska landsliðsmanninn hjá Borussia Dortmund, í marga mánuði en enn hefur ekkert þokast í þeim efnum.

Eini leikmaðurinn sem United hefur keypt eftir að síðasta tímabili lauk er Donny van de Beek. United greiddi Ajax 35 milljónir punda fyrir hollenska landsliðsmanninn sem skoraði í leiknum gegn Palace á laugardaginn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×