Lífið

„Allt sem er gott gerði ég og allt sem er dónalegt og yfir strikið gerðu hinir“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Anna Svava fór mikinn í fyrstu tveimur þáttunum af Eurogarðinum en það er alltaf mikið líf á heimili hennar á morgnanna. 
Anna Svava fór mikinn í fyrstu tveimur þáttunum af Eurogarðinum en það er alltaf mikið líf á heimili hennar á morgnanna. 

Anna Svava Knútsdóttir fer með eitt af aðalhlutverkunum í Eurogarðinum á Stöð 2 en þættirnir hófu göngu sína í gærkvöldi.

Sindri Sindrason leit við hjá henni á dögunum klukkan hálf átta um morguninn og fékk að fylgjast með morgunrútínunni hjá henni, börnunum tveimur og eiginmanni hennar Gylfa Þór Valdimarssyni.

Hún segist ekki vera mikil morgunmanneskja og það sé oftast í höndum Gylfa að rífa fjölskylduna á fætur.

„Ég væri til í að sofa til ellefu alltaf. Hann sofnar síðan alltaf í sófanum klukkan tíu og ég horfi til tvö og sé alltaf eftir því,“ segir Anna Svava.

Börnin halda Önnu á tánum á morgnanna.

Hún vonar að börnin feti ekki í hennar fótspor og verði ekki leikarar.

„Ég myndi kjósa að þau myndu gera eitthvað annað. Leikarar eru svo uppteknir af sjálfum sér. Þó ég eigi marga leikaravini þá eru þeir alltaf eitthvað að spá í rassgatinu á sjálfum sér.“

Ef Anna Svava hefði ekki valið leiklistina hefði hún líklega endað sem viðburðarskipuleggjandi.

„Ég var að fatta þetta um daginn, þetta er það sem mig langar að gera. Mig langar að skipuleggja partí, starfsmannagleði og ratleiki og svoleiðis.“

Hún segist alltaf vera stoltust af því verkefni sem hún var að vinna við síðast.

„Núna er ég stoltust af Eurogarðinum. Ég er ekkert stressuð fyrir þessu og held að þetta slái í gegn. Allt sem er gott gerði ég, og allt sem er dónalegt og yfir strikið gerðu hinir,“ segir Anna Svava en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.