Enski boltinn

Telles þokast nær United

Sindri Sverrisson skrifar
Alex Telles er leikmaður Porto.
Alex Telles er leikmaður Porto. vísir/getty

Manchester United á í viðræðum við Porto um kaup á brasilíska vinstri bakverðinum Alex Telles.

Þetta fullyrðir breska ríkisútvarpið, BBC, á vef sínum. Þar segir að Porto meti Telles á 18 milljónir punda en hann á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann gæti því farið frítt næsta sumar, og United gert samning við hann í janúar.

Samkvæmt Telegraph og fleiri miðlum er talið að United hafi gert Porto tilboð upp á 12 milljónir punda en BBC segir þó ekkert um það eða gang viðræðnanna. Telegraph segir að United hafi einnig spurst fyrir um Ismaila Sarr, 22 ára sóknarmann Watford.

Telles er 27 ára og á að baki einn A-landsleik fyrir Brasilíu. Hann hefur skorað 21 mark í 127 leikjum fyrir Porto og ljóst að Ole Gunnar Solskjær lítur á Telles sem góðan kandídat í að veita Luke Shaw samkeppni eða taka við af honum sem helsti vinstri bakvörður United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×