Fanney Lind Thomas, leikmaður Breiðabliks, átti að taka út leikbann þegar hún mætti Val í fyrstu umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta.
Breiðablik vann óvæntan og frækinn sigur gegn liðinu sem spáð er titlinum í vetur, 71-67, og átti Fanney Lind sinn þátt í því. Nú þarf KKÍ hins vegar að breyta úrslitunum í 20-0 sigur meistara Vals þar sem Fanney var ólögleg í leiknum.
Fanney var úrskurðuð í eins leiks bann í vor vegna tveggja tæknivillna og óhóflegra mótmæla við dómara. Þar sem að tímabilið var flautað af fyrr en ella vegna kórónuveirufaraldursins náði hún ekki að taka út bannið í vor.
Samkvæmt reglum KKÍ færist leikbann yfir á næstu leiktíð ef ekki tekst að afplána það. Því mátti Fanney ekki spila gegn Val.
Breiðablik fær 250 þúsund króna sekt vegna málsins en félagið á rétt á því að kæra málið til aga- og úrskurðanefndar.