Enski boltinn

Dómarar verða minna strangir varðandi hendi

Sindri Sverrisson skrifar
Martin Atkinson dæmdi hendi á Victor Lindelöf, eftir að hafa skoðað atvikið á skjá, en hefði sennilega sleppt því miðað við nýju viðmiðin.
Martin Atkinson dæmdi hendi á Victor Lindelöf, eftir að hafa skoðað atvikið á skjá, en hefði sennilega sleppt því miðað við nýju viðmiðin. vísir/getty

Ensku úrvalsdeildarfélögin í fótbolta hafa fengið í gegn að dómarar verði mildari varðandi það hvenær dæma skuli hendi, eftir fjölda umdeildra vítaspyrnudóma í upphafi leiktíðar.

Það var viðbúið að vítaspyrnudómarnir yrðu fleiri en áður í Englandi í vetur eftir að þess var krafist að sama lína yrði í úrvalsdeildinni eins og öðrum helstu deildum Evrópu, varðandi það hvenær dæma skyldi hendi. Í fyrstu þremur umferðunum hafa nú þegar sex vítaspyrnur verið dæmdar á menn fyrir hendi, sem vakið hafa miklar deilur.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa nú fundað með IFAB, stjórninni sem semur lög fótboltans, og fengið í gegn að dómarar hafi meira frelsi til að meta ákveðin atriði huglægt. Enn verði þó farið eftir útgefnum reglum.

Dómurum er því uppálagt, frá og með næstu helgi, að meta betur sjálfir hvernig líkamsstaða leikmanns sé og hversu langt hann sé frá boltanum áður en hann fær hann í höndina.

Hefðu dæmdt víti á Dier en ekki Lindelöf

Samkvæmt ESPN þýðir það þó ekki að menn sleppi við að fá dæmt á sig víti fyrir að sveifla hendi fyrir ofan öxl, jafnvel þó þeir snúi baki í boltann eins og í tilviki Eric Dier í leik Tottenham og Newcastle.

ESPN segir hins vegar að líklega hefðu vítaspyrnurnar sem dæmdar voru á Matt Doherty í leik gegn Southampton, Victor Lindelöf í leik gegn Crystal Palace og Joel Ward í leik gegn Everton, ekki verið dæmdar miðað við nýju viðmiðin. Boltinn hafi skoppað í Doherty af stuttu færi, hönd Lindelöf hafi verið í eðlilegri stöðu, og hönd Wards verið nálægt búknum.

Vítið sem dæmt var á Robin Koch, þegar Liverpool vann Leeds í fyrstu umferð, hefði aftur á móti verið dæmt þar sem að boltinn fór nægilega langa vegalengd og handleggur Koch var of langt frá búknum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×