Enski boltinn

Rifjuðu upp geggjað mark Gylfa fyrir heimsókn West Ham á Goodison í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti West Ham fyrir tæpu ári síðan.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu á móti West Ham fyrir tæpu ári síðan. Getty/ Jan Kruger

Gylfi Þór Sigurðsson fær vonandi dýrmætar mínútur til að sanna sig fyrir Carlo Ancelotti í kvöld þegar Everton fær West Ham í heimsókn í enska deildabikarnum en í boði er sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Everton hefur byrjað tímabilið frábærlega og hefur unnið fyrstu fimm leiki sína í deild (3) og deildabikar (2). Þetta verður hins vegar fyrsti bikarleikur liðsins á móti úrvalsdeildarliði.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið inn á sem varamaður í öllum þremur úrvalsdeildarleikjunum á tímabilinu en hefur verið í byrjunarliðinu og með fyrirliðabandið í leikjunum í enska deildabikarnum.

Everton fær West Ham í heimsókn í kvöld í sextán liða úrslitum enska deildarbikarsins en liðið er þegar búið að vinna góða sigra á Salford (3-0) og Fleetwood (5-2) í keppninni til þessa. Gylfi hefur spilað allar 180 mínúturnar í boði í þessum tveimur sigrum liðsins.

Gylfi á góðar minningar frá síðasta leik Everton og West Ham á Goodison Park en hann innsiglaði þá 2-0 sigur Everton með geggjuðu marki undir lok leiksins.

Everton hitaði upp fyrir leikinn í kvöld með því að rifja upp þetta mark Gylfa fyrir leikinn en það má sjá markið hans frá öllum sjónarhornum í myndbandinu hér fyrir neðan.

Markið á móti West Ham 19. október í fyrra er næstsíðasta mark Gylfa fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði mark úr víti á móti Leicester City seinna á tímabilinu og eina mark hans á þessu tímabili var mark sem hann skoraði í sigurleiknum á móti Salford City.

Gylfi hefur alls skorað þrjú mörk á móti West Ham. Fyrsta deildarmark hans fyrir Tottenham kom á móti West Ham og þá skoraði hann einnig fyrir Everton á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2018-19.

Leikur Everton og West Ham hefst klukkan 18.45 og verður í beinni á Stöð 2 Sport 3. Leikur Brighton og Manchester United verður sýndir beint á sama tíma á Stöð 2 Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×