Körfubolti

Ragnar Örn: Held ég sé að verða of gamall

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ragnar Örn Bragason var sáttur með leik kvöldsins.
Ragnar Örn Bragason var sáttur með leik kvöldsins. Eyþór

„Í fyrsta lagi er alltaf gaman að vinna og hrikalega mikilvægt að byrja vel. Við erum mjög ánægðir með það. Okkur er ekkert spáð frábæru gengi en við höfum heldur betur trú á okkur,“ sagði Ragnar Örn Bragason eftir góðan sigur Þórs í Þorlákshöfn á Haukum í 1.umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Í spá sem Íþróttadeild Vísis og Stöð 2 Sport birti fyrir tímabilið var Þórsurum spáð í 10.sæti í Dominos-deildinni sem þýðir áframhaldandi veru í deildinni en enga úrslitakeppni. Eru Þórsarar eitthvað að spá í þessum spám?

„Nei, alls ekki. Ég heyri þetta bara frá vinnufélögunum sem eru að ræða þetta. Vonandi get ég hlegið að þeim í lok tímabilsins.“

Kári Jónsson, hinn frábæri leikmaður Hauka, olli Þórsurum miklum vandræðum í fyrri hálfleiknum. Hann skoraði þá 21 stig en heimamenn náðu að loka betur á hann í þeim síðari þar sem hann bætti aðeins við sex stigum.

„Við ætluðum að reyna að stoppa vinstri höndina á honum, hann er fáránlega góður þegar hann nær að komast þangað og mér fannst hann fá að gera það of oft í fyrri hálfleiknum.“

„Mér fannst við laga það í seinni hálfleik, láta hann setja boltann á hægri og það skilaði því að hann skoraði mun færri stig í seinni hálfleiknum.“

Ragnar Örn skoraði tvö síðustu stig leiksins með glæsilegri troðslu í þann mund sem tíminn var að renna út. Það hlýtur að vera gaman að geta sett punktinn yfir i-ið á þann hátt í fyrstu umferðinni?

„Jú, heldur betur. Fyrir utan að ég fékk smá tak í kálfann þannig að ég held að ég sé að verða of gamall. Það var samt mjög ljúft að enda leikinn svona,“ sagði Ragnar Örn kampakátur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×