Erlent

Bandarísku forsetahjónin smituð af kórónuveirunni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Forsetahjónin sjást hér á sviðinu eftir fyrstu kappræðurnar vegna komandi kosninga en kappræðurnar fóru fram á þriðjudag.
Forsetahjónin sjást hér á sviðinu eftir fyrstu kappræðurnar vegna komandi kosninga en kappræðurnar fóru fram á þriðjudag. Getty/Scott Olson

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Melania Trump, eiginkona hans, eru smituð af kórónuveirunni sem veldur sjúkdómnum Covid-19 og eru nú komin í einangrun. Trump greindi sjálfur frá þessu á Twitter í nótt.

Forsetinn er orðinn 74 ára gamall og er þar af leiðandi í áhættuhópi vegna Covid-19 eins og annað eldra fólk. Hann sagði í tístinu sínu að þau Melania væru nú þegar komin í einangrun og að bataferlið væri hafið.

„Við munum komast í gegnum þetta saman!“ skrifaði Trump.

Auk hjónanna hefur Hope Hicks, 31 árs gamall ráðgjafi Trump, greinst jákvæð fyrir veirunni en enginn annar úr starfsliði forsetans hefur greinst smitaður, enn sem komið er.

Hún ferðaðist með honum í Air Force One-flugvél forsetans á leið í fyrstu kappræðurnar vegna komandi forsetakosninga sem fram fóru í Ohio á þriðjudag. Þar mætti Trump mótframbjóðanda sínum, Demókratanum Joe Biden.

Óljóst er hvaða áhrif það hefur á næstu kappræður, sem áætlaðar eru 15. október næstkomandi, að Trump og Melania hafi greinst með kórónuveiruna.

Þó er strax ljóst að forsetinn mun þurfa að hætta við og/eða fresta fjölda framboðsfunda sem hann ætlaði að halda á næstu dögum og vikum.

Sean Conley, læknir forsetans, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að bæði forsetinn og forsetafrúin séu við góða heilsu eins og er. Þau muni dvelja heima hjá sér í Hvíta húsinu á meðan þau ná bata.

„Ég get fullvissað ykkur um að forsetinn mun áfram sinna sínum skyldum á meðan hann nær bata og ég mun halda ykkur upplýstum um þróun mála,“ segir í yfirlýsingunni.

Rúmur mánuður er í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þær fara fram þann 3. nóvember.

Hvergi hafa fleiri smitast af kórónuveirunni í heiminum en í Bandaríkjunum, eða alls um 7,3 milljónir manna. Þá hafa hvergi fleiri látið lífið vegna Covid-19 en í Bandaríkjunum, eða tæplega 208 þúsund manns.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×