Íslenski boltinn

Berglind Rós: Erum alltaf mikið betri í seinni hálfleik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Rós tryggði Fylki stig í dag.
Berglind Rós tryggði Fylki stig í dag. Vísir/Bára

Berglind Rós Ágústsdóttir bar að venju fyrirliðaband Fylkis er liðið gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna í Garðabænum í dag er liðin mættust í 16. umferð Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu. 

Hún var ekki sátt með að ná aðeins í eitt stig en gat þó fagnað því að hafa tryggt liði sínu eitt stig. Eitthvað sem gerist ekki oft þar sem Berglind verður seint sökuð um að reima markaskóna of oft á sig.

„Okkur langaði að vinna leikinn og ætluðum okkur að gera það, orðið frekar langt síðan við unnum leik. Það er betra að fá eitt stig en ekki neitt svo þetta er allt í lagi, ekkert mikið meira en það,“ sagði Berglind Rós að leik loknum.

„Það er góð spurning, við breyttum leikkerfi og það hjálpaði töluvert. Við erum alltaf mikið betri í seinni hálfleik, erum mjög lengi í gang og verðum að fara laga það því fyrstu mínúturnar í hverjum leik skipta svo miklu máli. Ég veit ekki hvað gerðist en við komumst í gang í síðari hálfleik og náum að jafna en áttum auðvitað að byrja miklu fyrr,“ sagði Berglind aðspurð hvað hefði breyst hjá Fylki í síðari hálfleik en liðið var varla með í þeim fyrri.

Berglind Rós fagnaði marki sínu vel og innilega í dag. Eðlilega þar sem hún skorar ekkert á hverjum degi. Alls er hún með fjögur mörk í 122 leikjum í deild og bikar á ferlinum.

„Ég er mjög glöð þegar ég skora, enda gerist það mjög sjaldan. Að jafna leikinn, hjálpa liðinu mínu og við vorum miklu betri en Stjarnan í seinni hálfleik. Þær voru betri í fyrri en við seinni og við áttum að klára þetta svo þetta er mjög súrt“

„Við ætlum að ná 3. sætinu, næsti leikur er á miðvikudaginn svo við þurfum að hugsa vel um okkur og ætlum okkur sigur þar,“ sagði Berglind Rós að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×