Enski boltinn

Fimmtán ár síðan Íslendingalið var síðast með fullt hús í enska á þessum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni með Everton liðinu um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni með Everton liðinu um helgina. Getty/Alex Livesey

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eru með tólf stig af tólf mögulegum eftir fjórar fyrstu umferðirnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Everton vann 4-2 sigur á Brighton & Hove Albion í fyrsta byrjunarliðsleik Gylfa Þórs Sigurðssonar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Gylfi kom inn fyrir Brasilíumanninn Allan sem meiddist í deildarbikarsigri á West Ham í síðustu viku. Gylfi fékk tækifærið og lagði upp fyrsta mark Everton í leiknum.

Everton er nú með fullt hús eftir fjóra fyrstu leikina og markatöluna 12-5.

Síðasta Íslendingalið til að vera með fullt hús eftir fjóra fyrstu leikina í ensku úrvalsdeildinni var lið Chelsea tímabilið 2005-06. Eiður Smári Guðjohnsen spilaði reyndar bara tvo af þessum fjórum leikjum. Tímabilið á undan spilaði Eiður aftur á móti alla fjóra leikina í fyrstu fjórum umferðunum sem Chelsea vann líka alla.

Eiður Smári spilaði tvo fyrstu leikina með Chelsea tímabilið 2005 til 2006 en var ekki í hóp í næstu tveimur leikjum liðsins. Chelsea vann níu fyrstu deildarleiki tímabilsins og varð síðan enskur meistari annað árið í röð.

Gylfi hefur reyndar áður unnið fyrstu fjóra deildarleikina sem hann hefur spilað á tímabili. Tottenham vann þá fjóra af fimm fyrstu leikjum sínum tímabilið 2013-14. Gylfi var ónotaður varamaður þegar Tottenham tapaði 1-0 fyrir Arsenal í þriðju umferðinni en spilaði alla fjóra sigurleikina í þessum fyrstu fimm umferðum.

Gylfi Þór og félagar í Swansea City unnu þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu 2014-15 og var Gylfi með eitt mark og fjórar stoðsendingar í þeim þar af mark og stoðsendingu í 2-1 sigri á Manchester United í fyrstu umferðinni. Swansea tapaði hins vegar 4-2 á móti Chelsea í fjórðu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×