Enski boltinn

Argentínsk goðsögn líkir nýja Man. Utd stráknum við „óþekktarorm“ inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Facundo Pellistri er góður með boltann og vill taka menn á. Hér er hann í leik með Penarol liðnu.
Facundo Pellistri er góður með boltann og vill taka menn á. Hér er hann í leik með Penarol liðnu. Getty/Sandro Pereyra

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United veðjaði í gær á átján ára leikmann frá Úrúgvæ þegar félagið keypti Facundo Pellistri frá Penarol.

Það þekkja ekki margir Facundo Pellistri í Evrópu en þessu ungi strákur hefur vakið talsverða athygli í heimalandi sínu. Manchester United var tilbúið að borga níu milljónir punda fyrir hann eða meira en sextán hundruð milljónir íslenskra króna.

Manchester United ákvað að klára kaupin strax en vitað var af áhuga félaga eins og Real Madrid, Juventus og Atletico Madrid.

Fyrst fréttist af honum árið 2017 og félög í Evrópu hafa fylgst með honum síðan þar á meðal í leikjum í Copa Libertadores keppninni.

United er á því að þarna sé félagið búið að finna stjörnu framtíðarinnar og það er ljóst að hann hefur aldurinn með sér enda fæddur í desember 2001.

Argentínska goðsögnin Juan Roman Riquelme var spurður út í leikmanninn en Juan Roman Riquelme sjálfur sagði það einu sinni að mesta eftirsjáin á hans ferli hafi verið að fara ekki til Manchester United þegar Sir Alex Ferguson vildi fá hann árið 2006.

Riquelme segir að strákurinn sé góður í fótbolta. „Hann er ungur og hæfileikaríkur,“ sagði Juan Roman Riquelme sem er að vinna fyrir Boca Juniors þessa dagana.

„Hann hefur ekki spilað það mikið en þú sérð að hann er sannur óþekktarormur þegar hann er með boltann við fætur sér. Það er mikilvægt, sagði Riquelme.

„Það eru ekki til margir leikmenn eins og hann, það er leikmenn sem hafa hugrekkið að vera svona ósvífnir inn á vellinum. Það eru verðmæti í því, sagði Riquelme.

Það leynir sér ekki að Facundo Pellistri er flinkur með boltann og hann reynir mikið að taka menn á sem tekst oft hjá honum. Það var fyrrum leikmaður Manchester United, Diego Forlan, sem gaf stráknum tækifærið hjá aðlliði Penarol. Forlan hefur síðan hætt hjá félaginu.

Orð Riquelme og tölfræðin frá Úrúgvæ segja okkur líka að Facundo Pellistri vill gera hlutina svolítið upp á eigin spýtur og á kannski eftir að læra það að vinna betur innan liðsins. Það verður hann að gera ef hann ætlar að fá að spila hjá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×