Enski boltinn

Heldur því fram að hann hafi í raun verið stjóri Liverpool en ekki Klopp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp við hlið Zeljko Buvac þegar allt lék í lyndi.
Jürgen Klopp við hlið Zeljko Buvac þegar allt lék í lyndi. EPA/ANDY RAIN

Viðtal við fyrrum aðstoðarmann Jürgen Klopp komst í fréttirnar eftir skellinn hjá lærisveinum Klopp í Liverpool um helgina en þar eignar hann sér heiðurinn að velgengi Klopp.

Zeljko Buvac, fyrrum aðstoðarmaður Jürgen Klopp, bauð upp á sérstakar yfirlýsingar í athyglisverðu viðtali þar sem hann gerði upp tímann sinn hjá Liverpool.

Zeljko Buvac hætti óvænt hjá Liverpool í apríl 2018 eftir að það slettist upp á vinskap hans og Jürgen Klopp. Þeir voru þá búnir að vinna saman í sautján ár.

Buvac hafði fengið viðurnefnið „heilinn“ á tíma sínum með Klopp og sumir voru að velta því fyrir sér hvernig Liverpool liðinu myndi ganga án hans. Eftir að Zeljko Buvac hætti þá hefur Liverpool unnið Meistaradeildina, heimsmeistarakeppni félagsliða og enska meistaratitilinn.

Daily Mail sagði frá viðtali rússneska blaðamannsins Nobel Arustamyan við Zeljko Buvac. Myndbandið var birt á YouTube en því hefur nú verið eytt án skýringa. 

„Ég óskaði félaginu ekki til hamingju með titlana. Ég var samt ánægður fyrir hönd Liverpool, fyrir hönd stuðningsmannanna og fyrir hönd leikmannanna,“ sagði Zeljko Buvac í viðtalinu.

„Mér leið eins og ég væri stjórinn hjá liði Klopp í öll þessi sautján ár fyrir utan það að tala opinberlega og fara í viðtöl. Ég þurfti ekki á athyglinni að halda heldur var bara að vinna vinnuna mína,“ sagði Buvac. Hann er þó ekki tilbúinn að sanna sig annars staðar.

„Ég vil ekki verða stjóri núna. Ég myndi hugsa mig um ef Barcelona myndi hringja en annars kæmi það ekki til greina,“ sagði Zeljko Buvac.

Buvac er nú yfirmaður knattspyrnumála hjá Dynamo Moskvu í Rússlandi.

„Þú segir að ég sé bara hér til að hafa eitthvað að gera þar til að ég fær betra tilboð. Ef þú vissir bara hvernig tilboðum ég hef hafnað síðan ég hætti hjá Liverpool þá myndir þú ekki segja það. Ég ætla ekki samt að segja hvaða félög höfðu samband,“ sagði Zeljko Buvac.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×