Erlent

„Ekki láta veiruna stjórna ykkur, ekki vera hrædd við hana“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Forsetinn kemur fram á svalir Hvíta hússins í gærkvöldi eftir að hann útskrifaðist af spítala og tekur af sér grímuna.
Forsetinn kemur fram á svalir Hvíta hússins í gærkvöldi eftir að hann útskrifaðist af spítala og tekur af sér grímuna. Getty/Win McNamee

Donald Trump Bandaríkjaforseti er mættur aftur í Hvíta húsið eftir að hafa verið á Walter Reed-spítalanum í þrjár nætur. Hann var lagður inn eftir að hann greindist með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum Covid-19.

Eftir að forsetinn kom aftur í Hvíta húsið fór hann fram á Truman-svalirnar þar sem hann tók af sér grímuna og heilsaði að hermannasið.

Áður hafði hann skrifað á Twitter-síðu sína að sér líði vel og sagði að fólk ætti ekki að vera hrætt við Covid-19.

Enn er þó mörgum spurningum ósvarað um heilsufar forsetans og engin svör hafa til að mynda fengist varðandi það hvort hann mælist nú neikvæður fyrir veirunni. Hann segist ætla að mæta aftur í kosningabaráttuna innan skamms tíma.

Í stuttu ávarpi sem tekið var upp eftir komu forsetans sagðist hann hafa verið í fremstu víglínu þar sem hann hefði leitt fólkið áfram, eins og leiðtogar eiga að gera. Þá lagði hann mikla áherslu á að fólk ætti ekki að láta Covid-19 stjórna lífi sínu.

„Þið munuð sigrast á henni [veirunni]. Við erum með bestu lækningatækin, bestu lyfin, allt sem var þróað nýlega,“ sagði Trump og hélt áfram:

„Við munum vera í fremstu víglínu. Sem leiðtogi þurfti ég að gera það. Ég vissi að það var hættulegt en ég varð að gera það. Ég stóð í fremstu víglínu og ég leiddi fólk áfram.“

Þá velti Trump því upp að nú væri hann kannski orðinn ónæmur fyrir kórónuveirunni.

„Núna líður mér betur. Kannski er ég orðinn ónæmur, ég veit það ekki,“ sagði hann.

Í lok ávarpsins sagði hann svo að bóluefni gegn veirunni kæmi innan skamms, þrátt fyrir að Bandaríska sóttvarnastofnunin hafi sagt að ekki sé búist við því að bóluefni verði aðgengilegt víða fyrr en um mitt næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×