Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Viktors Orban í Ungverjalandi hefði brotið evrópsk lög þegar hún breytti reglum um æðri menntun í landinu sem leiddi til þess að alþjóðlegur háskóli sem milljarðamæringurinn George Soros neyddist til þess að flytja nær alla starfsemi sína úr landi.
Orban, forsætisráðherra Ungverjalands hefur hert tök sín á dómstólum, fjölmiðlum og frjálsum félagasamtökum í stjórnartíð sinni sem hefur í vaxandi mæli einkennst af valdboðsstefnu. Hann hefur sagst vilja stefna að „ófrjálslyndu“ lýðræði.
Lög sem ríkisstjórn hans samþykkti árið 2017 þýddi að erlendir háskólar máttu ekki lengur starfa í Ungverjalandi nema þeir kenndu einnig námskeið í heimalöndum sínum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kærði lögin til Evrópudómstólsins sem komst að þeirri niðurstöðu í dag að lögin stríddu gegn Evrópurétti og skuldbindingum Ungverjalands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Soros, sem er hataður á meðal vestrænna hægriöfgamanna og þjóðernissinna vegna stuðnings hans við ýmis frjálslynd málefni, stofnaði Mið-Evrópuháskólann sem var rekinn í Ungverjalandi. Eftir að lögin voru samþykkt fyrir þremur árum hrökklaðist skólinn að mestu úr landi með starfsemi sína.