Skoðun

Ís­land með sterk skila­boð

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Í dag fer ferðakaupstefnan Vestnorden fram með rafrænum hætti í fyrsta skipti í 34 ára sögu þessa mikilvæga viðburðar þar sem ferðaþjónustufyrirtækjum gefst kostur á að mynda ný viðskiptasambönd og viðhalda þeim sem fyrir eru. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA) standa að Vestnorden en þau eru samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála.

Covid-19 varpar enn skugga óvissu á næstu vikur og mánuði og erfitt að spá fyrir um þróun faraldursins. Ferðatakmarkanir eru áfram við landamæri okkar í bili en þeim verður aflétt þegar ástandið lagast. Ferðaþjónustufyrirtæki vinna marga mánuði fram í tímann og eru nú að vinna með bókanir fyrir árið 2021 sem ber jákvæð teikn.

Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) spáir því að ferðaþjónusta taki hratt við sér um mitt næsta ár að gefnum forsendum um að þróun heimsfaraldursins snúist við, aukið traust fólks á ferðalögum og almennt afnám ferðatakmarkana. Það verður þó mikil samkeppni á milli landa og alls ekki sjálfgefið að ferðamenn velji Ísland sem áfangastað. Sterk viðskiptatengsl og markvissar markaðsaðgerðir munu skipta sköpum við að flýta fyrir bata íslenskrar ferðaþjónustu.

Við berum þá gæfu að Ísland er með sterk skilaboð út í heim á þessum tímum. Ísland er strjálbýlasta landið í Evrópu með stórbrotna náttúru og víðerni sem fólk getur upplifað án mannfjölda. Á vaxtarskeiði ferðaþjónustunnar undanfarin ár höfum við séð mikla þróun í þjónustuframboði fyrir gesti og sterkari innviði í öllum landshlutum árið um kring. Ísland er ennfremur aðgengilegt og með góðar flugtengingar allt árið undir venjulegum kringumstæðum. Þá er mikilvægt að samhliða vexti ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur Íslandi tekist að viðhalda einu hæsta meðmælaskori (NPS) í heimi, svo gestir okkar eru ánægðir með reynslu sína.

Í dag mun fjöldi fyrirtækja eiga mikilvæga fundi sem leiða til aukinna viðskipta og efla traust á Íslandi sem áfangastað. Hluti af því trausti snýst um fyrirsjáanleika í ferðatakmörkunum og því fyrr sem það skýrist, því fyrr sjáum við útflutningstekjur af ferðaþjónustu aukast samfélaginu til heilla.

Höfundur er fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×