„Þar sem notaðir hlutir fá nýtt líf,“ segir í slagorði Góða hirðisins sem frá og með deginum í dag býður vörur til sölu í netverslun sinni.
Á heimasíðunni godihirdirinn.is má finna ýmsa flokka af notuðum munum svo sem hljóðfæri, bækur, barnavörur og húsgögn.
Vefverslunin er af hefðbundinni gerð. Fólk setur hluti sem það vill í körfu og greiðir svo fyrir þær í lokin. Þá er hægt að sía út vörur á ákveðnu verðbili.
Góði hirðirinn afhendir svo vörurnar í Fellsmúla á laugardögum milli klukkan 10 og 15. Sækja þarf keypta vöru innan fjórtán daga en annars áskilur Góði hirðirinn sér rétt til að endurselja vöruna.
Markmið Góða hirðisins er að endurnýta hluti til áframhaldandi lífs og draga úr sóun. Allur ágóði af sölu rennur til góðgerðarmála. Úthlutun styrkja fer fram einu sinni á ári.
Það er einnig hefð fyrir því að halda uppboð til styrktar góðs málefnis í desember ár hvert. Um 250 milljónir króna hafa verið veittar í styrki frá 1996.