Innlent

Starfsmaður lögreglunnar með Covid og tuttugu sendir í sóttkví

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Um tuttugu starfsmenn embættisins hafa verið sendir í úrvinnslusóttkví.
Um tuttugu starfsmenn embættisins hafa verið sendir í úrvinnslusóttkví. VÍSÍR/VILHELM

Starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu greindist með Covid-19 í gær. Um tuttugu starfsmenn embættisins eru nú í úrvinnslusóttkví vegna smitsins að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá embættinu.

„Við vonumst til þess að eftir rakningu fáum við mörg þeirra aftur til vinnu. Fólkið verður heima hjá sér þangað til að smitrakningarteymið ákveður hverjir eru útsettir og hverjir ekki,“ segir Ásgeir Þór.

Hann segir að síðustu helgi hafi embættinu verið skipt upp í nítján sótthólf til að takmarka áhrifin ef upp kemur smit.

Þá kom annað smit upp hjá embættinu fyrir nokkrum dögum en sá sem smitaðist hafði ekki komið til vinnu og var enginn settur í sóttkví hjá embættinu.

„Auðvitað hefur þetta einhver áhrif á starfsemina og við erum að endurskipuleggja nokkra hluti. Embættið er þó að fullu starfhæft,“ segir Ásgeir Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×