Innlent

Yfir þúsund nemendur og kennarar í sóttkví í Reykjavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Margir grunnskólakrakkar eru í sóttkví um þessar mundir.
Margir grunnskólakrakkar eru í sóttkví um þessar mundir. Vísir/vilhelm

Alls hafa greinst 55 smit hjá nemendum og starfsfólki í skólum Reykjavíkurborgar að undanförnu. 1.013 nemendur, kennarar og starfsfólk leik- og grunnskóla eru í sóttkví samkvæmt fyrirmælum frá smitrakningarteyminu.

Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu um hversu margir nemendur og starfsfólk leik- og grunnskóla í borginni séu með virkt smit eða í sóttkví vegna kórónuveirunnar.

Eins og greint var frá í gær kom meðal annars upp smit í Klettaskóla, sérskóla í Reykjavík fyrir börn með þroskahömlun. Þá hefur verið greint frá því að smit hafi komið upp í síðustu vika á leikskólanum Seljaborg í Breiðholti. Auk þess er öll unglingadeild Háteigsskóla komin í sóttkví.

Í svari við fyrirspurn Vísis kemur fram að alls séu 55 virk smit hjá nemendum og starfsfólki leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins, 38 smit hjá börnum og sautján hjá starfsfólki, af þeim eru þrír sem starfa á leikskólum.

Alls eru 780 börn sem stunda leik- eða grunnskólanám í Reykjavík í sóttkví, 148 leikskólabörn, 2,3 prósent leikskólabarna í borginni, og 632 börn, á grunnskólaaldri eða 4,1 prósent grunnskólabarnaþ Þá eru 233 starfsmenn leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í sóttkví samkvæmt fyrirmælum sóttvarnarlæknis/smitrakningateymis, af því að fram kemur í svari Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×