Erlent

Greindist tvisvar með Covid-19

Telma Tómasson skrifar
Tvöfalt kórónuveirusmit er talið mjög sjaldgæft og niðurstöður rannsókna virðast ekki einhlítar um hversu lengi fólk er ónæmt fyrir veirunni.
Tvöfalt kórónuveirusmit er talið mjög sjaldgæft og niðurstöður rannsókna virðast ekki einhlítar um hversu lengi fólk er ónæmt fyrir veirunni. Vísir/Getty

Bandarískur karlmaður hefur greinst tvisvar með Covid-19 og voru einkennin mun verri í síðara skiptið sem hann veiktist. Læknar vestanhafs greindu frá þessu í gær.

Maðurinn er 25 ára, heilsuhraustur og án undirliggjandi sjúkdóma, eftir því sem fram kemur í frétt á breska ríkismiðlinum BBC. Hann var settur í öndunarvél þegar hann var sem mest veikur, en hann er sagður hafa náð sér að fullu.

Tvöfalt kórónuveirusmit er talið mjög sjaldgæft og niðurstöður rannsókna virðast ekki einhlítar um hversu lengi fólk er ónæmt fyrir veirunni.

Sérfræðingar sem meðhöndluðu Bandaríkjamanninn telja líklegt að hann hafi smitast af kórónuveirunni í tvígang frekar en að veiran hafi legið í láginni í líkama hans og blossað upp á ný. Er það stutt með raðgreiningu veirunnar á fyrra og seinna smitinu.

Prófessor við Háskólann í Nevada sagði tilfellið auka enn skilning manna á kórónuveirunni. Hann sagði að um mjög sjaldgæft tilfelli væri að ræða, en taldi það sýna að fólk ætti áfram að leggja mikla áherslu á sóttvarnir jafnvel þótt það hefði veikst af Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×