Enski boltinn

Kveið því að fara í skólann og fékk fallegt bréf frá Klopp

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp sendi ungum stuðningsmanni Liverpool fallegt bréf.
Jürgen Klopp sendi ungum stuðningsmanni Liverpool fallegt bréf. getty/Laurence Griffiths

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sendi ungum stuðningsmanni liðsins bréf þar sem hann stappaði í hann stálinu.

Í sumar sendi hinn ellefu ára Lewis Balfe Klopp bréf þar sem hann sagðist kvíða fyrir því að fara í skólann. Klopp svaraði stráknum á dögunum.

„Halló Lewis, má ég byrja á að segja þér leyndarmál. Ég verð stressaður. Til að vera hreinskilinn hefði ég áhyggjur ef ég yrði ekki stressaður því það gefur mér tækifæri til að nýta þá orku í eitthvað jákvætt. Ég veit að það kann að vera skrítið að heyra að stjóra Liverpool líði eins og þér en svoleiðis er það,“ skrifaði Klopp í bréfinu til Balfes.

„Af bréfinu að dæma ertu mjög hugsandi og umhyggjusamur og þegar þú býrð yfir þeim eiginleikum er erfitt að vera ekki stressaður. Þú spurðir mig hvað ég gerði þegar leikmönnunum líður svona og svarið er einfalt. Ég minni þá á hversu mikilvægir þeir eru mér og hversu mikla trú ég hef á þeim. Ég efa það ekki að það er svipað hjá þér og fjölskyldu þinni. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að slæmir hlutir gerist. Ég hef tapað þónokkrum úrslitaleikjum, það er ekki skemmtileg tilfinning en með hjálp fjölskyldu og vina held ég áfram og á endanum kemur eitthvað gott út úr því.“

Klopp hvatti Balfe til að vera jákvæður og sagðist vera viss um að hann ætti bjarta framtíð fyrir höndum.

„Og ekki gleyma að þú ert hluti af Liverpool fjölskyldunni og það þýðir að það eru milljónir manna alveg eins og þú sem vilja að þú verðir eins hamingjusamur og mögulegt er. Stuðningur þinn skiptir mig og alla hjá Liverpool miklu máli og vonandi sýnir þetta bréf að við styðjum þig líka. Þú gengur aldrei einsamall,“ skrifaði Klopp.

Bréfið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×