Erlent

Biden sagði Trump fórna eldri borgurum í bar­áttunni við kórónu­veiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Biden á kosningafundinum með eldri borgurum í Flórída í gær.
Biden á kosningafundinum með eldri borgurum í Flórída í gær. Getty/Chip Somodevilla

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, fór hörðum orðum um Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og viðbrögð hans við kórónuveirufaraldrinum á kosningafundi sem hann hélt með eldri borgurum í Flórída í gær.

Biden sagði að í augum forsetans mætti fórna eldri borgurum í baráttunni við veiruna og að eini eldri borgarinn sem Trump hugsaði um væri hann sjálfur.

Trump hélt sjálfur kosningafund í lykilríkinu Flórída á mánudag þar sem þúsundir stuðningsmanna hans komu saman. Voru margir þeirra án gríma.

Fundur Biden í gær var töluvert frábrugðinn; mun færri voru viðstaddir, sjálfur bar hann grímu sem og gestir fundarins og fjarlægðartakmörk voru virt.

Á fundinum sakaði Biden Trump um að hundsa þá ógn sem kórónuveiran er við líf og heilsu eldri borgara.

Repúblikanar faðmast á meðan eldri borgarar geta ekki hitt barnabörnin

„Fyrir Trump má fórna ykkur, það má gleyma ykkur, þið eruð í raun enginn. Þannig sér hann eldri borgara. Þannig sér hann ykkur,“ sagði Biden og bætti við að eini eldri borgarinn sem Trump hugsaði um væri hann sjálfur.

Þá gagnrýndi hann jafnframt forsetann fyrir að halda viðburði sem hafa verið tengdir við hópsýkingar, til dæmis athöfnin í Rósagarðinum þegar tilkynnt var um tilnefningu Amy Coney Barrett í embætti hæstaréttardómara.

Biden sagði að á þessum viðburðum væru Repúblikanar að faðmast á meðan eldri borgarar gætu ekki hitt barnabörnin sín.

„Hann yfirgaf ykkur“

Sjálfur hélt Trump kosningafund í Pennsylvaníu í gær. Þar sagði hann meðal annars að Biden væri ekki góður maður.

„Hann er vondur maður og hefur alltaf verið heimskingi,“ sagði forsetinn meðal annars um mótframbjóðanda sinn.

Töluvert hefur verið gert úr æsku Bidens í Pennsylvaníu í kosningabaráttu hans en Trump gaf lítið fyrir það.

„Þau segja að hann hafi fæðst í Scranton. En hann fór. Hann fór. Hann yfirgaf ykkur,ׅ“ sagði Trump.

17% forskot Bidens á Trump

Aðeins eru tæpar þrjár vikur til kosninga. Biden mælist nú með 17 prósentustiga forskot á Trump samkvæmt nýrri könnun sem breska blaðið Guardian og rannsóknafyrirtæki Opinium hafa gert á meðal bandarískra kjósenda og birt var í gærkvöldi.

Samkvæmt könnuninni segjast 57% ætla að kjósa Biden en 40% ætla að kjósa Trump. Þetta forskot Biden er prósentustigi meira en forskotið sem hann mældist með í könnun bandarísku fréttastofunnar CNN fyrr í mánuðinum.

Í þeirri könnun mældist Biden með 57% fylgi en Trump 41%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×