Golf

Efsti maður heimslistans með kórónuveiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dustin Johnson er í einangrun eftir að hann greindist með kóróuveiruna.
Dustin Johnson er í einangrun eftir að hann greindist með kóróuveiruna. getty/Jamie Squire

Dustin Johnson, efsti maður heimslistans í golfi, hefur greinst með kórónuveiruna. Hann hefur dregið sig úr keppni á CJ Cup, sem er hluti af PGA-mótaröðinni, sem hefst á morgun.

„Ég er mjög vonsvikinn. Ég hlakkaði til að keppa um helgina en við munum gera allt sem við getum til að ég geti snúið aftur sem fyrst,“ sagði hinn 36 ára Johnson. Hann er núna í einangrun.

Johnson fann fyrir slappleika á mánudaginn og fór í kjölfarið í próf þar sem í ljós kom að hann er með kórónuveiruna.

Johnson keppti síðast á Opna bandaríska meistaramótinu í september þar sem hann endaði í 6. sæti. 

Bandaríkjamaðurinn hefur verið samfleytt í efsta sæti heimslistans í 99 vikur. Hann hefur unnið eitt risamót (Opna bandaríska 2016) og 23 mót á PGA-mótaröðinni.

Sýnt verður frá CJ Cup á Stöð 2 Golf. Bein útsending frá mótinu hefst klukkan 21:00 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×