Erlent

Kona í Sví­þjóð greindist með Co­vid-19 í annað sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Dagens Nyheter greinir frá þessu og segir að konan hafi fyrst greinst með veiruna í maí og svo aftur í ágúst.
Dagens Nyheter greinir frá þessu og segir að konan hafi fyrst greinst með veiruna í maí og svo aftur í ágúst. Sahlgrenska

Læknar við Sahgrenska sjúkrahúsið hafa staðfest að 53 ára kona í Svíþjóð hafi greinst með Covid-19 í annað sinn.

Dagens Nyheter greinir frá þessu og segir að konan hafi fyrst greinst með veiruna í maí og svo aftur í ágúst. Yfir sumarmánuðina hafi hún hins vegar ekki verið með nein einkenni eða mælst með veiruna í líkamanum.

DN segir frá því að læknir konunnar hafi rannsakað sjúkrasögu konunnar og bent læknum við Sahlgrenska sjúkrahúsið og Háskólann í Gautaborg á málið. Hafa þeir síðan í september rannsakað erfðamengi veirunnar í konunni.

„Veirustofninn frá í maí var í tíu atriðum frábrugðinn þeim sem rannsakaður var í ágúst. Það gerir það að verkum að við getum sagt að um tvær ólíkar sýkingar er að ræða og ekki sama sem hafi legið í dvala,“ segir læknirinn Johan Ringlander í samtali við DN.

Læknarnir segjast þó ekki vera undrandi á því að hægt sé að staðfesta fyrsta tilfellið sem þetta í Svíþjóð, það er að sjúklingur hafi fengið Covid-19 í tvígang. Einungis hafi verið um tímaspursmál að ræða, þar sem sambærileg tilfelli hafi þegar komið upp í öðrum löndum.

„Við þekkjum það með aðrar kórónuveirur að hætta á endurtekin veikindi er fyrir hendi,“ segir Ringlander.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×