Björgunarskipið Gísli Jóns á Ísafirði var kallað út klukkan hálf ellefu vegna vélarvana skips innarlega í Djúpinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þar segir að skipið sem var á veiðum hafi orðið vélarvana og reki nú hægt að landi með þrjá menn um borð.
„Björgunarskipið Gísli Jóns fór úr höfn á Ísafirði um 10 mínútum eftir að útkall barst og er á leiðinni til aðstoðar skipinu.“
Uppfært kl 11:53: Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg er báturinn Gísli Jóns kominn með bátinn í tog og er áætlað að um tvo tíma muni taka að draga hann til hafnar á Ísafirði. Vélarvana báturinn á að hafa rekið að landi í Ísafirði, innst í Ísafjarðardjúpi.