Erlent

Slökkva á hljóð­nemum Trumps og Bidens í kapp­ræðunum á fimmtu­dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Trump og Biden sjást hér í kappræðunum í lok september.
Trump og Biden sjást hér í kappræðunum í lok september. Epa/Jim Lo Scalzo

Kappræður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Joes Biden keppinautar hans í forsetakosningunum fara fram á fimmtudaginn kemur. Þær verða með öðru sniði en fyrri kappræðurnar í síðasta mánuði.

Þá eyddu frambjóðendurnir, og þá sérstaklega Trump, miklu púðri í að grípa fram í fyrir hvorum öðrum þannig á stundum heyrðust ekki orðaskil.

Úr þessu verður nú bætt þar sem tekin hefur verið ákvörðun um að slökkva á hljóðnema þess frambjóðanda sem ekki er með orðið.

Kappræðurnar fara fram í Nashville í Tennessee og hefðu átt að vera númer þrjú í röðinni. Einum viðburðanna þurfti þó að fresta í kjölfar þess að Bandaríkjaforseti smitaðist af Covid-19. Kappræðurnar áttu að fara fram rafrænt en Trump harðneitaði að taka þátt í þeim.

Ósáttur við að ekki eigi að ræða utanríkismál

Tvær vikur er nú til kosninga og eru kappræðurnar þær síðustu þar sem frambjóðendurnir tveir mætast.

Forsetinn hefur tjáð sig um það að slökkt verði á hljóðnemunum á fimmtudag. Hann segist ætla að taka þátt, þótt honum hugnist ekki nýju reglurnar, enda séu þær afar ósanngjarnar.

Þá hefur kosningateymi Trump einnig gagnrýnt að ekki eigi að ræða utanríkismál í kappræðunum. Það hjálpi Biden að ræða það ekki.

Teymi Bidens skaut til baka og sagði Trump vera að reyna að koma sér undan því að svara spurningum um viðbrögð hans við kórónuveirufaraldrinum.

Þau málefni sem fréttamaður NBC og stjórnandi kappræðnanna, Kristen Welker, mun ræða við þá Trump og Biden eru bandarískar fjölskyldur, kynþættir í Bandaríkjunum, loftslagsbreytingar, þjóðaröryggi og leiðtogahæfni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×